22/12/2024

Vestfirskt rannsóknaþing á Ísafirði

Fimmtudaginn 7. desember fer fram stutt rannsóknaþing í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði þar sem vísinda- og rannsóknafólk á Vestfjörðum kemur saman. Þingið er ætlað bæði fyrir þau sem starfa innan stofnana og þau sem vinna sjálfstætt. Dagskráin hefst kl. 14 og stendur fram eftir degi.

Til stóð að halda tveggja daga rannsóknaþing á Patreksfirði í haust en tekin var ákvörðun um að fresta því þar sem tímasetningin þótti ekki henta þegar á reyndi. Þess í stað var ákveðið að halda styttra þing á Ísfirði í desember þar sem vísinda- og rannsóknafólk mun stilla saman strengi sína og leggja drög að viðameira rannsóknaþingi vorið 2018.

Háskólasetur Vestfjarða hlaut hvatningarstyrk úr Sóknaráætlun Vestfjarða til að skipuleggja Rannsóknaþing Vestfjarða. Markmið þingsins voru m.a. þau að gefa rannsóknastofnunum og sjálfstætt starfandi vísinda- og fræðafólki tækifæri til að bera saman bækur sínar og vinna markvisst að því að þróa samstarfsverkefni. Einnig var þingið hugsað sem vettvangur til að kynna almenningi og fyrirtækjum það fjölbreytta starf sem unnið er á sviði rannsókna og vísinda á Vestfjörðum. Ekki gefst svigrúm til slíkra kynninga að þessu sinni og bíða þær stærra þings.

Þeir sem hug hafa á því að skrá sig á rannsóknaþingið 7. desember eða óska frekari upplýsinga eru beðnir að senda tölvupóst á netfangið birna@uw.is.