28/04/2024

Vestfirðingar á ferðatorgi

Fjöldi vestfirskra ferðaþjóna er nú staddur í Fífunni, Smáranum í Kópavogi og stendur þar að kynningu á ferðaþjónustu og afþreyingu á Vestfjörðum. Upplýsingamiðstöðin á Hólmavík hefur fulltrúa á staðnum sem passar upp á að gestir fái að vita allt sem þeir vilja um Strandir. Fremur rólegt hefur verið það sem af er sýningunni, en eftir því sem liðið hefur á daginn hefur fólki fjölgað til muna. Búist er við mikilli örtröð á morgun sunnudag, áður en sýningunni lýkur. Hún er opin frá 11-18 báða dagana núna um helgina. Góður rómur hefur verið gerður að vestfirska básnum sem þykir einkar glæsilegur og er mál manna að enginn annar bás jafnist á við hann. Haförn sem situr á grjótvörðu setur svip á básinn, hvítur sandur og rekaviður.