26/04/2024

Verkefnið Sjávarþorpið Suðureyri kynnt

Að undanförnu hefur verið unnið að sérstöku verkefni á Suðureyri sem hefur fengið nafnið Sjávarþorpið Suðureyri. Hugmyndin byggir á samstarfi margra aðila um að bjóða ferðamönnum að upplifa sjávarþorpið Suðureyri með það markmið að byggja sameiginlega upp ferðaþjónustu með þátttöku í daglegu lífi íbúanna og fræðslu um lifnaðarhætti og menningu íbúa í litlu sjávarþorpi á Íslandi. Ferðamenn geta þannig upplifað hvernig það er að búa í litlu sjávarþorpi og m.a. skroppið í róður ef svo ber undir eða tekið þátt í öðrum daglegum athöfnum íbúanna. Í kvöld kl. 20:00 verður opinn kynningarfundur um verkefnið á Suðureyri.

Fyrirtækið Hvíldarklettur ehf á Suðreyri fékk síðast liðið haust viðurkenningu frá nýsköpunar og vöruþróunarsjóð Samtaka ferðaþjónustunnar fyrir undirbúning að þessari vinnu og hefur það ýtt undir framþróun verkefnisins og er verkefnið nú að stórum hluta komið á framkvæmdastig.

Ferðaþjónustufyrirtækið Hvíldarklettur ehf tók við rekstri Söluskála Essó á Suðureyri í upphafi árs en söluskálinn mun taka virkan þátt í klasaverkefninu Sjávarþorpið Suðureyri og Olíufélagið ásamt fleiri aðilum leggur fram myndarlegan stuðning við verkefnið.

Þetta er spennandi verkefni sem Hólmvíkingar ættu að fylgjast vel með, en vel er hugsanlegt að hægt sé að koma á svipuðu klasaverkefni í Galdraþorpinu Hólmavík með sameiginlegu átaki atvinnulífsins á staðnum.