23/12/2024

Vegagerð um Hrútafjarðarbotn boðin út

Traffík á fyrsta vetrardag í HrútafirðiVegagerðin hefur nú óskað eftir tilboðum í nýbyggingu hringvegarins um Hrútafjarðarbotn, en lengi hefur staðið til að bjóða þetta verkefni út. Um er að ræða um 6,9 km kafla af hringveginum frá Brú í Bæjarhreppi að Brandagili í Húnaþingi vestra, ásamt 1,6 km langri tengingu við Djúpveg og alls um 1,2 km af öðrum tengingum. Samkvæmt auglýsingu á útlögn klæðningar að vera lokið fyrir 15. september 2008 og verkinu að fullu lokið fyrir 1. nóvember sama ár. Skila skal tilboðum í síðasta lagi þriðjudaginn 13. nóvember næstkomandi og verða þau opnuð þann sama dag.

Vegstæðinu verður breytt þannig að hringvegurinn fylgir eftir breytinguna veginum norður á Strandir frá Brú og norður fyrir Selá við Fögrubrekku. Þaðan færist vegurinn síðan yfir fjarðarbotninn og liggur austan við húsin á Fjarðarhorni. Vegurinn norðan af Ströndum verður síðan tengdur inn á hringveginn á nýjum stað fyrir miðjum botni Hrútafjarðar og lengist því leiðin fyrir Hrútfirðinga suður yfir Holtavörðuheiði lítið eitt.

Leiðin milli Stranda og Vestfjarða og Norðurlands styttist hins vegar við þetta um átta og hálfan kílómetra, en leiðin milli Reykjavíkur og Akureyrar lengist um 500 metra. Á móti kemur að hættuleg leiðindabeygja við Brú verður ekki lengur hluti hringvegarins og einbreið og varasöm brú yfir Síká í Húnaþingi vestra verður sömuleiðis utan hringvegar.

Staðarskáli fer úr alfaraleið við þessa vegagerð og Brúarskáli verður aflagður. Ætlunin eigenda þeirra mun vera að byggja nýjan og stærri söluskála Strandamegin við Hrútafjarðará, á túni skammt vestan við ný gatnamóta við veginn norður á Strandir. Samkvæmt fréttum visir.is er stefnt að því að nýi skálinn verði tilbúinn um leið og nýi vegurinn.

Helstu magntölur við þetta verkefni eru:

Bergskering 17.000 m3
Fylling og fláafleygar 123.700 m3
Neðra burðarlag 33.400 m3
Efra burðarlag 17.100 m3
Steinröraræsi 57 m
Plaströraræsi 169 m
Stálröraræsi 292 m
Tvöföld klæðing 74.500 m2
Rofvarnir 4.500 m3
Uppsetning bitavegriða 1.020 m
Uppsetning víravegriða 450 m
Frágangur fláa 128.000 m2
Girðingar 8.200 m