30/10/2024

Vegaframkvæmdir í Hrútafjarðarbotni

Á fréttavefnum www.huni.is kemur fram að á fundi byggðaráðs Húnaþings vestra 3. apríl var lagt fram til kynningar bréf frá Vegagerðinni þar sem tilkynnt er um vegaframkvæmdir á hringveginum um Hrútafjarðarbotn. Um er að ræða endur- og nýbyggingu á 6,8 km. löngum kafla ásamt þremur stuttum vegtengingum þannig að framkvæmdin er samtals 7,6 km. löng. Vegagerðin telur að framkvæmdin hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar.

Í fréttinni kemur fram að byggðarráð ítrekaði á fundi sínum fyrri samþykkt sveitarstjórnar Húnaþings vestra um að vegtenging Hringvegar og Djúpvegar verði norðan við Fjarðarhorn og skorar á Vegagerðina að taka tillit til ábendinga sveitarstjórna Bæjarhrepps og Húnaþings vestra þess efnis. Kemur fram að verði sú leið farin muni það stytta leiðina milli Hvammstanga og Borðeyrar um 1,5 km til viðbótar við þá 7,17 km sem tillaga Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir.

Hljóta allir Strandamenn að taka heilshugar undir þessar tillögur sveitarstjórna Bæjarhrepps og Húnaþings vestra um vegtenginguna og styttingu leiðarinnar milli staða á Ströndum og á Norðurlandi.