10/09/2024

Vega(enda)leysa samgönguráðherra

Aðsend grein: Sigurður Pétursson, Ísafirði.
Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor riðu sjálfstæðismenn um héruð og dreifðu kosningaloforðum. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra lét sig ekki muna um að blanda sér í kosningarnar vestur á fjörðum, misnota stöðu sína og ráðuneyti með fundahöldum og blaðaskrifum eins og frægt er orðið. Í þeirri umræðu var veifað framan í kjósendur fögrum fyrirætlunum á borð við jarðgöng úr Dýrafirði í Arnarfjörð, þverun Mjóafjarðar í Ísafjarðardjúpi og vegi um Arnkötludal. Allt þarfar framkvæmdir og löngu tímabærar – enda hefur sumum þeirra verið marglofað af sjálfstæðismönnum áður, í aðdraganda fyrri kosninga.

Loforðin svikin
Ekki var þó langt liðið frá sveitarstjórnarkosningum þegar sú tilkynning barst frá ríkisstjórninni að nú þyrfti að slá vegaframkvæmdum á Vestfjörðum á frest, vegna “þensluáhrifa” frá Kárahnúkavirkjun og uppgangi á suðvesturhorninu. Tilkynningin kom eins og köld vatnsgusa framan í Vestfirðinga, sem ekki höfðu áttað sig á því að þeir ættu svona mikinn þátt í “þenslunni” á undanförnum árum. Margir þóttust því illa sviknir þegar enn einu sinni virtist ætla að verða töf á nauðsynlegum vegabótum hér vestra. En sagan er ekki öll sögð, því endaleysan hélt áfram.

Á fundi sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum með Sturla Böðvarssyni samgönguráðherra fyrir tveimur mánuðum, lýsti ráðherrann því yfir að eiginlega hefði framkvæmdum á Vestfjörðum ekki verið frestað, þar sem vinna við útboðsgögn fyrir þverun Mjóafjarðar og Arnkötludalsleið hefði hvort sem er ekki verið tilbúin! Þetta var þá alltsaman einhver brella. En hvern var eiginlega verið að blekkja? Var verið að blekkja kjósendur í vor þegar því var lýst yfir að þessi verk færu af stað á þessu ári? Var verið að blekkja landsmenn þegar lýst var yfir að þessum verkefnum yrði frestað til að ná niður verðbólgunni? Eða var verið að blekkja okkur sveitarstjórnarmenn þegar okkur var sagt að ekkert væri tilbúið og engu hafi í raun verið frestað?

Vestfirðingar bíða
Það er kannski til of mikils mælst að samgönguráðherra eða aðstoðarmenn hans, sem stundum hafa hlaupið undir baggana með honum þegar áróðurshlassið hallast, geti svarað þessum spurningum. Þeir hafa sennilega nóg með að reyna að uppfylla eitthvað af þeim loforðum sem dreift var síðastliðið vor. Eitt hljóta þeir þó að viðurkenna. Það er langt liðið á október á dagatalinu og samkvæmt því, ætti Vegagerð ríkisins nú að vera tilbúin með útboðsgögn fyrir vegaframkvæmdir þær sem Vestfirðingar hafa beðið eftir. Nú væri ráðlegt fyrir hann eða einhvern léttspora í ráðuneytinu, að setja á sig betri skóna, og sækja útboðsgögnin sem ráðherrann var búinn að lofa fyrir þeirra hönd.

Samgönguráðherra hefur stundum reynt að komast kringum loforð og yfirlýsingar sínar með því að „vona“ að þær gangi eftir. Margir hafa tekið undir vonir hans og treyst þeim. Vonbrigði hafa Vestfirðingar hinsvegar oft upplifað, eins og síðastliðið sumar, þegar efndirnar standa á sér. En nú er aftur treyst á vonir og væntingar því alþingiskosningar eru næsta leyti. Nú verður samgönguráðherra og samflokksmenn hans að átta sig á því að kominn er tími efnda og aðgerða. Og október er að líða.

Sigurður Pétursson, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ
er frambjóðandi í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.