22/12/2024

Val á milli kvenna?

Aðsend grein: Herdís Sæmundardóttir
Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi skólameistari Menntaskólans á Ísafirði sendir mér tóninn í grein sem hún ritaði á netmiðla í kjördæminu í síðustu viku. Það er nokkuð sérstakt að þessi fyrrverandi skólameistari sem jafnan hefur gefið sig út fyrir að vera jafnréttissinna skuli stilla málum upp með þeim hætti sem hún gerir í grein sinni. Hún lætur svo út líta að valið standi á milli mín og Önnu Kristínar Gunnarsdóttur í kosningunum í vor og hvetur til að menn kjósi Önnu Kristínu.

Ólína beitir þeirri taktík að tala mig niður og tala Önnu Kristínu upp. Í fyrsta lagi telur hún ekki ráðlegt að kjósa mig þar sem ég sé svo lítið þekkt í kjördæminu og í öðru lagi sé ég fulltrúi þeirra afla sem veikja vilja Byggðastofnun. En Ólína er greinilega ekki með á nótunum.

Í fyrsta lagi stendur valið ekki á milli mín og Önnu Kristínar, heldur miklu fremur á milli mín og Karls Matthíassonar, sem skipar 2. sæti hjá Samfylkingunni.

Í öðru lagi er ég ekki svo viss um að Anna Kristín sé svo ýkja þekkt í kjördæminu þrátt fyrir að hafa setið á þingi í 4 ár.

Í þriðja lagi stafaði veiking Byggðastofnunar fyrst og fremst af stefnubreytingu lánastofnana á sínum tíma sem leiddi til þess að bankarnir keyptu alla sterkustu kúnna stofnunarinnar til sín. Bankarnir hafa nú kippt að sér höndum og lána ekki hvert á land sem er.

Nú hefur Alþingi ákveðið að efla Byggðastofnun í sinni núverandi mynd og þess sjást nú þegar merki. Byggðastofnun eru falin fjölmörg ný verkefni í byggðaáætlun 2006-2009 og fyrirséð að ráða þurfi fleira starfsfólk til stofnunarinnar á næstunni.

Ólínu þarf því ekki að vera þrautin svo þung – valið er einfalt ef hún raunverulega vill stuðla að fjölgun kvenna á þingi.

Herdís Á. Sæmundardóttir
Skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi