26/12/2024

Vætta- og forynjuferð í Steingrímsfirði

Sunnudaginn næsta verður skipulögð gönguferð á Ströndum á slóðir landvætta og forynja. Gengið verður frá Gilstöðum í Selárdal við norðanverðan Steingrímsfjörð (framan við Geirmundarstaði) og upp með Þjóðbrókargili þar sem skessan Þjóðbrók stendur steinrunnin. Farið verður yfir fjall, gamla kirkjuleið, að Stað í Steingrímsfirði og staldrað við hjá haug Steingríms trölla og í Kirkjutungum framan við Stað. Það er Matthías Lýðsson svæðisleiðsögumaður sem hefur umsjón með ferðinni, en lagt verður upp kl. 13:30 og er mæting við Geirmundarstaði. Ætla má að gangan taki um það bil 5 tíma og er fólki ráðlagt að taka með sér nesti og góða skó.