22/12/2024

Útsvarið á Ströndum 13,28%

Öll sveitarfélög á Ströndum og reyndar Vestfjörðum öllum hafa hækkað útsvarið í 13,28% sem er hæsta leyfilega útsvarsprósentan. Bolungarvíkurkaupstaður leggur að auki 10% álag á útsvarið sem þýðir að útsvarið er í raun 14,61% þar. Þrjú sveitarfélög á landinu leggja á lágmarksútsvar eða 11,24%, allt fámenn sveitarfélög: Skorradalshreppur, Helgafellssveit og Ásahreppur. Alls hækka 58 sveitarfélög af 79 á landinu útsvarið, en eitt sveitarfélag, Fljótsdalshreppur, lækkar það milli ára.

Nýlega voru samþykkt lög á alþingi um breytingu á tekjuskatthlutfalli einstaklinga úr 22,75% í 24,1% og á hámarkshlutfalli útsvars úr 13,03% í 13,28%. Árið 2009 verður tekjuskatthlutfallið því 24,1% í stað 22,75% árið 2008. Eftir að sveitarfélögin hafa tilkynnt um útsvarsprósentu sína liggur fyrir að meðalútsvar verður 13,11% en var 12,97% á árinu 2008. Staðgreiðsluhlutfallið verður því 37,2% í stað 35,72% á þessu ári.

Á móti kemur hækkun persónuafsláttar sem áður hafði verið ákveðin, sem kemur sér sérlega vel fyrir þann hóp sem lægstar hafa tekjurnar. Persónuafsláttur hvers einstaklings verður 506.466.- krónur á árinu eða 42.205.- krónur að meðaltali á mánuði í stað 34.034.- Að sama skapi hækka skattleysismörk umtalsvert. Í dag eru skattleysismörkin liðlega 99 þúsund krónur á mánuði en verða 118 þúsund krónur á mánuði.