24/06/2024

Útkall hjá Björgunarsveitinni

Björgunarsveitarhúsið á HólmavíkMeðan Hólmvíkingar blótuðu þorrann síðastliðið laugardagskvöld fékk Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík beiðni frá lögreglunni um að grennslast fyrir um fólk á eins drifs fólksbíl. Fólkið var á vesturleið um Djúp og hafði ekki skilað sér á áfangastað á réttum tíma. Tveir vaskir björgunarsveitarmenn fóru því á jeppa sveitarinnar til leitar og fannst bíllinn að lokum fastur á Eyrarfjalli. Ekkert amaði að fólkinu sem hafði ekið framhjá lokunarskilti Vegagerðarinnar, en sveigja varð framhjá því til að komast um veginn.  

strandir.saudfjarsetur.is vill hvetja fólk til að hafa vara á sér þegar lagt er af stað í ferðalög, kanna vel færð og veðurútlit og síðast en ekki síst ættu allir að fara eftir leiðbeiningum Vegagerðar á vegum úti. Viðvörunar- eða lokunarskilti eru ekki sett upp að óþörfu og engin ástæða er til að hundsa þau. Slíkur gjörningur getur haft afdrifaríkar afleiðingar.