22/12/2024

Út og suður í Árneshreppi

Sjónvarpsþættirnir Út og suður hjá Ríkissjónvarpinu njóta mikilla vinsælda og um daginn var þáttur með Matthíasi hótelstjóra á Laugarhól. Gísli Einarsson heldur sig áfram á Ströndunum og í sjónvarpinu í kvöld verður sýnt frá heimsókn hans í Árneshrepp. Þetta er líklega í fyrsta skipti sem hann heimsækir heilt sveitarfélag eða allavega stóran hluta íbúa þess. Farið er á bæi og spjallað við bændur og búkonur. Litið er við í Kaupfélaginu og Grunnskólanum þar sem tveir nemendur verða við nám næsta vetur og handverksmenn, galdramenn og fleiri Strandamenn koma við sögu.

Samkvæmt dagskrárvef RÚV er þátturinn sýndur í kvöld klukkan 19.35, annað kvöld klukkan 23.10, á þriðjudaginn 26. júní klukkan 16.35 og þann 1. júlí klukkan 11.00.