23/12/2024

Úrslit í myndakeppninni Göngur og réttir 2007

Nú er komið að úrslitum í ljósmyndasamkeppni Sauðfjárseturs á Ströndum og vefjarins strandir.saudfjarsetur.is; Göngur og réttir á Ströndum 2007. Dágóðan tíma hefur tekið að ákveða hvaða myndir kæmust í úrslit, en dómnefnd skipuð fagmönnum og áhugamönnum um ljósmyndun vann myrkranna á milli við að kafa ofan í bunkann sem barst, en það voru mörg hundruð myndir frá fjölmörgum aðilum. Nú er komið að lesendum strandir.saudfjarsetur.is að kjósa bestu myndina, en það er hægt að gera með því að smella hér eða á auglýsingakubb sem birtist stöku sinnum hér vinstra megin á síðunni.

Í vali sínu á myndum horfði dómnefnd m.a. á uppbyggingu myndanna, myndefnið sjálft, hreyfingu, stemmningu og umhverfi, svo fáein atriði séu nefnd. Öllum þeim sem sendu inn myndir er þakkað kærlega fyrir þátttökuna og vonandi verða menn enn duglegri við að senda inn myndir í næstu samkeppni.

Kosningunni hér á vefnum lýkur þann 24. mars nk., annan í páskum.