22/12/2024

Úr slátursvinnu á Eyri

Gamlar myndir.
Í gær birtum við gamla mynd hér á vefnum úr safni Sauðfjársetursins og óskuðum eftir upplýsingum um þriðja manninn á myndinni, hann Edda. Árangurinn varð með ágætum og nú vitum við allt um Eðvard Árnason sem var í sveit á Gili, upphaflega af því Árni faðir hans var í vegavinnu í Bitrunni. Þess vegna birtum við nú aðra mynd úr safninu sem er töluvert yngri. Á henni eru tveir drengir að snyrta sviðahausa í slátursvinnu á Óspakseyri. Sá til vinstri er nokkuð örugglega Guðjón Fr. Jónsson frá Gili, þó hann sé nú reyndar hreint ekkert viss um það sjálfur. Hann er kannski svona 13-15 ára sem er heppilegt til að tímasetja myndina í kringum 1970 eða svo.

Misvísandi upplýsingar eru hins vegar um hver sá til hægri er og hafa tveir einkum verið nefndir til sögu, Stefán Gíslason frá Gröf og Einar Indriðason frá Árdal. Vefstjóranum finnst hins vegar báðar þessar tillögur fremur ólíklegar, þó hann muni reyndar ekki hvernig þeir kumpánar litu út á þessum árum. Gaman væri nú ef einhver veit þetta nú fyrir víst og léti okkur vita á strandir@strandir.saudfjarsetur.is.