26/04/2024

Lítið eitt um Arnkötludal

300-arn5Söguþáttur eftir Matthías Lýðsson
Með nýjum vegi um Arnkötludal opnast fólki leið um land þar sem verið hefur fáförult síðustu áratugina. Því fer þó fjarri að svo hafi alltaf verið. Um Arnkötludal lá áður fjölfarin leið milli Steingrímsfjarðar og Króksfjarðar, svonefnd Bæjardalsheiði kennd við Bæ og Bæjardal í Króksfirði. Velja má um þrjár leiðir upp úr Arnkötludal vestur yfir svonefndar Eggjar og niður á Bæjardal. Enn standa vörður á þessum leiðum, misvel standandi og þó síst á leiðinni innst í dalnum sem virðist mest hafa verið farin og víða sér enn mosagrónar og grjóttíndar götur fyrri heiðarfara.

Á Arnkötludal voru líka þrír bæir  sem fullvíst er að voru byggðir um lengri eða skemmri tíma og munnmæli eru um búsetu á þrem öðrum stöðum. Ef ekið er suður eftir nýja veginum, þá sveigir hann frá ánni u.þ.b. er girðingum á Hrófá sleppir, upp fyrir Kistuás. Í landinu um 400 metrum ofan vegar, undir raflínunni, stóð bærinn Hrófársel. Rústirnar þar eru mjög greinilegar, enda ekki komið nema nokkuð á aðra öld síðan þar var búið. Óvíst er að samfelld búseta hafi verið í Hrófárseli og vera kann að það sé sami bærinn og nefndur var Skógarland og getið er Jarðabókinni 1703 og hafði þá ekki verið í byggð svo eftir væri munað. Það hafa að minnsta kosti hvergi í nágrenninu fundist bæjartóftir.

Í mynni Arnkötludals á móts við múlahornið á Tröllatunguheiðinni, austan árinnar, var bærinn Arnkötludalur. Þar stendur eitt hús uppi enn og ef draga má ályktanir af þykkt bæjarhólsins og umfangi mannvistarminja í túninu og í nágrenni bæjarins á hann langa búsetusögu. Sú saga rofnaði 1957 þegar hjónin Guðrún Jónatansdóttir og Sigurður Helgason og börn þeirra hættu þar búskap og fluttu að Hrófá. Jörðin er enn að mestu leyti í eigu afkomenda Guðrúnar og Sigurðar.

Góðum kílómeter framan við Arnkötludalsbæinn fellur Ófærugilið í ána vestanverða. Skammt norðan við gilið steinsnar frá veginum eru sagnir um að hafi staðið bær sem hét Gautsstaðir. Munnmæli segja að þar hafi verið byggt skömmu eftir landnám, en sú búseta fljótlega aflögð. Fátt bendir þar nú til búsetu en þó eru gamlar vegglægjur sem svo langt er síðan að mannshöndin velti þar við hnaus að þær alveg falla inn í umhverfið. Austan árinnar uppi á mýrunum er sagt að hafi verið kotið Kaldrani. Svo kann að vera, en líklegra er að byggingar þar hafi verið til búsþarfa frá Arnkötludal.

Fremsti bærinn í dalnum var Vonarholt. Er á vesturbakka Arnkötludalsárinnar og ekki nema um 150 metra neðan við veginn, í hæfilegu göngufæri. Engin hús eru uppistandandi, en enn er glöggt hægt að skoða húsaskipan. Vonarholt fór úr byggð 1935 þegar þau Guðrún Jónatansdóttir og Sigurður Helgason fluttu búferlum að Arnkötludal.

Um þrem kílómetrum sunnan Vonarholts sveigir vegurinn austur yfir ána, sem í síðsumarvatni er oftast ekki meiri en skóvæður lækur. Meðfram henni eru valllendismóar og sléttar eyrar og þar sem þeim sleppir stendur stakur hóll á bakkanum vestan ár. Hann er í senn bæði grýttur og gróinn vel. Hann heitir Víghóll. Nafnið bendir til víga enda fylgir hólnum sögn sem tengd er í munnmælunum við Fóstbræðrasögu þar sem segir frá því er Þorgeir Hávarsson gerði för sína að Hrófá til að vega Þóri bónda. Í Fóstbræðrasögu er sagt að þeir Þorgeir hafi komið að Hrófá undir kvöld og riðið til Reykhóla að vígi loknu.

Í sögunni sem varðveist hefur um Víghól er hins vegar sagt að þeir Þorgeir hafi lagt upp frá Reykjahólum síðla dags, riðið náttfari austur um Bæjardalsheiði og komið að Hrófá snemma morguns. Fór svo sem frá segir í Fóstbræðrasögu um viðskipti þeirra Þóris. Húsfreyjan á Hrófá varð að vonum ósátt við þann skaða er henni var gjör og safnaði skjótt liði til eftirfarar. Hestar þeirra Þorgeirs voru þreyttir og sárfættir eftir næturreið um hinar grýttu Eggjar Bæjardalsheiðar og drógu eftirreiðarmenn á þá. Þeim varð því það fyrir að búast til varnar á Víghól enda hóllinn brattur upp að sækja og gnægð af grjóti til að varpa að aðsóknarmönnunum. Varð nú þarna bardagi með miklu grjótkasti og barsmíðum. Hvorir tveggja öttu fram þrælum og ótignari mönnum og stóðu sjálfir að baki, enda ekki mikil fremd að falla fyrir grjóti eða rekalurkum Strandamanna. Veitti hvorugum betur og svo fór um síðir að menn urðu magnþrota og létu vopn síga. Voru þá þrír fallnir og margir sárir og lemstraðir. Það varð að ráði að einn úr hvoru liði gengu vopnlausir afsíðis og sömdu um bætur og manngjöld, svo eigi yrðu eftirmál. Hinir föllnu voru dysjaðir í urðarkasti skammt frá Víghól og heitir þar síðan Dys. Þannig lauk bardaganum við Víghól.

Það má furðu gegna að siðblindur fjöldamorðingi eins og Þorgeir Hávarsson skyldi fallast á samkomulag og hvað þá að halda það. Vera kann að hann hafi metið stöðuna þannig að samkomulag væri óhjákvæmilegt ella slyppi hann ekki lifandi. Það munum við aldrei vita. Ekki heldur hvort þessar sögur eru uppspuni frá rótum eða eiga stoð í liðinni tíð. Um það getum við ekki dæmt. Við getum ekki einu sinni vitað eða dæmt um það sem gerðist fyrir nokkrum árum, því enginn veit allan sannleika, eða eins og sagnfræðingurinn sagði: „Dómur sögunnar er ævinlega rangur.“

En Víghóllinn og Dysin eru enn á sínum stað og blasa við vegfarendum um Arnkötludal.

Matthías Sævar Lýðsson, svæðisleiðsögumaður

580-arn7

Fjárhúsin í Arnkötludal

580-arn2

Rústir á Gautsstöðum

580-arn1

Rústir á Kaldrana

580-arn6

Mógröf fremst á myndinni og bæjarstæðið á Vonarholti sést vel hinu megin við ána

580-arn5

Vonarholt

580-arn3

Víghóll

580-arn4

Dysin í urðinni skammt frá Víghól

– ljósmyndir eru teknar af Hilmari Agli Sveinbjörnssyni sumarið 1999 á stafræna myndavél.