29/03/2024

Úr dagbók farkennara

150-kertiMargir þeir Strandamenn sem komnir eru til vits og ára kannast við Oddnýju Guðmundsdóttir sem var lengi farkennari á Ströndum, fyrst snemma á 6. áratugnum og svo á seinni hluta 7. áratugarins og fram á miðjan 8. áratuginn. Eftir hana liggja nokkrar bækur og fjölmargar greinar með heilræðum og boðskap fyrir ungu kynslóðina.

Eftirfarandi grein sem hér eru birtir hlutar úr skrifaði Oddný í bókina Konur skrifa sem gefin var út til heiðurs Önnu Sigurðardóttur sjötugri af Sögufélaginu árið 1980. Eflaust kannast fjölmargir Strandamenn við sögusviðið og aðalpersónurnar í þeim brotum sem hér koma fram, þó þeir séu ekki nefndir á nafn.

Oddný var fædd 1905, en lést árið 1985. Þessi kafli úr grein hennar sem hér er birtur í tilefni jólanna, er því birtur án leyfis. Samt er hann birtur í þeirri fullvissu að Oddný sem ég man eftir að hafa farið í mín fyrstu lestrar-, skriftar- og reikningspróf til vorið 1974 eða 75 hefði ekki haft neitt á móti því að hann birtist hér. Reyndar þvert á móti.

ÚR DAGBÓK FARKENNARA

Þeir komu, þrír litlir snáðar, níu ára, átta ára og sjö ára, gangandi ofan dalinn í hálfbirtu á morgnanna. Skólinn er byrjaður. Þetta er hálftíma gangur. Hin börnin eru lengra að og geta ekki gengið að heiman.

Kennslan hefst í lítilli stofu, bezta herbergi heimilisins, þar sem margbreytt handavinna húsmóðurinnar prýðir bekki og þil og smíðisgripir húsbóndans vekja eftirtekt gestsins. Ég vona að börnin gæti þess að ganga vel um svona prúð hýbýli.

Við förum að lesa. Ég fæ þeim skólasöngvana. Sjö ára snáðinn á nú að lesa í skólanum í fyrsta sinn. Ég býst ekki við, að hann sé vel læs. En það er ekki nauðsynlegt að hjakka í smábarnabók. Alveg eins gott að hjálpa honum með erfiðustu orðin.

„Má ég ekki bara syngja þetta?“ spyr hann og er allt í einu laus við feimnina.

Ég hélt nú það.

Svo syngur drengur vísuna einarðlega og fer rétt með hvert orð. Ég skil, að hann kann hana, og spyr, hvort hann kunni margar vísur?

„Ekki kannske mjög margar,“ svarar hann, en segist hafa gaman af vísum, sem hægt er að syngja.

Ég veit, að mamma hans á lítið, fornfálegt orgel, og mér er sagt, að þetta sé sönghneigt fólk.

Drengur heldur áfram. Hann segir mér, að þegar pabbi og mamma séu í fjósinu á kvöldin og elzti bróðirinn með þeim, gæti þeir yngri að litlu systur á meðan.

„Og þá syngjum við stundum sálma.“

Ég spyr, hvort hann kunni sálma.

„Nei, við höfum bókina.“

Ég átta mig ekki á því, hvernig hann geti það, blessaður, ekki betur læs en hann er, og spyr, hvort ekki sé svolítið erfitt að lesa sálma.

„Nei, nei, ekki eins og við gerum. Við höfum bara sálmabókina opna, en syngjum vísur, sem við kunnum, og svo köllum við það að syngja sálma.“

Hann er svo hýr á svipinn, að þetta hljóta að vera skemmtilegar minningar.

Skólasöngvarnir minna okkur á margt. Þarna er kvæði Einars Benediktssonar um fánann. Ég segi, að þetta kvæði sé raunar ekki um fánann okkar, eins og hann er, heldur fána, eins og margir höfðu hugsað sér, að hann yrði.

„Já, Hvítbláinn!“ grípur níu ára snáði hógværlega fram í. Hann á heima hér á bænum og hefur ekki áður verið í skóla. Bætir svo við í þykkju: „En Íslendingar fengu nú ekki að hafa hann.“

Pilturinn er ekki slakur í sögu eftir aldri. Hvort hann hefur lesið þetta um fánann, heyrt það í útvarpi, eða mamma hans hefur sagt honum það, veit ég ekki.

Það kemur í ljós, að sá, sem nefndi Hvítbláinn fyrsta daginn, er furðuvel heima í skáldskap. Ég segi, í gáleysi, að hann kunni víst eins mikið og ég eftir Örn Arnarson. En hann kann nefnilega meira. Að vísu kann ég nokkur kvæði. En hann kann þeim mun meira af Odds rímum sterka.

Það eru bragarhættirnir, sem honum þykja svona skemmtilegir, hvernig þetta fellur saman, allavega, hér og þar í vísunum, eins og hann orðar það. Hann lofar mér, í trúnaði, að heyra hringhendu eftir sjálfan sig. Orti hana um skrýtinn draum, sem hann dreymdi, lét svo mömmu sína dæma um vísuna, áður en hann sagði eftir hvern hún væri.

Nú kenni ég niðri í sveitinni, eftir nokkra dvöl í næsta hreppi. Litlu bræðurnir þrír koma ekki. Ja, raunar var það bara sá elzti, sem átti að koma. Sjö og átta ára börn eru lítið í skólanum. En það glæðir hjá þeim áhuga að vera svolítið með, og þá verður ekki eins mikil mannraun að lesa á prófinu í vor.

Mamma drengjanna hringir til mín. Hún segist ekki geta misst þann elzta, það séu svolitlir erfiðleikar heima, lasleiki. Hún biður mig um verkefni handa honum, segist skuli láta hann lesa og reikna. Ég veit, að því er óhætt að treysta.

Ferhenduskáldið mitt kemur ekki heldur. Mamma hans kennir honum. Raunar segist hún ekki ætla að láta hann lesa skólabækur, að neinu ráði, í vetur, hann hafi ekki gott af því að vera kominn á undan hinum börnunum í öllum bókum næsta vetur. Hún segir, að hann þurfi að lesa ýmislegt fleira en skólabækur.

Eftir nokkur ár er ég komin í sama dalinn aftur. Hann á að fermast að vori, snáðinn, sem söng fyrir mig fyrsta daginn. Og nú talar fólk um, að hann hafi fallega rödd. Systir hans, sú litla, sem þeir sungu yfir sofandi hérna um árið, er nú orðin ellefu ára og er söngelsk. Eldri bræðurnir eru á héraðsskólanum.

Ljóðavinurinn reyndist mikill námsmaður. Ég bíð eftir því, að hann verði skáld. En tíðarandinn örvar ekki ung skáld til dáða.

Nú á dögum er mikið rætt um sérþarfir barna. Ekki kalla ég söngkennslu beinlínis sérþarfir, því að flestir munu geta notið hennar að nokkru. En hvað gera skólar dreifbýlisins fyrir nemendur eins og söngvarana mína í Dalnum?

Aftur á móti þori ég ekki að spyrja, hvað skólar geri fyrir nemendur eins og hagyrðinginn minn. Ég forðast að gefa í skyn að einhverja lærdómsmenn í stéttinni skorti brageyra og ást á orðsins list.