30/04/2024

Upp, upp mitt geð, og penninn með

Fram nú allir í röðHafin er vinna vegna útgáfu ferðablaðs um Reykhólasveit og Strandir fyrir sumarið 2008. Blaðið verður gefið út í 15-20 þúsund eintökum og verður dreift mjög víða og stendur ferðaþjónustuklasinn Arnkatla 2008 á bak við útgáfuna ásamt Markaðsstofu Vestfjarða. Allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til að skrifa greinarstúf um starfsemi sína eða raunar hvað sem er sem talið er henta í blaðið, sem miðar að því að hvetja til ferðalaga um Strandir og Reykhólasveit. Blaðið á að gefa skemmtilega sýn á allt svæðið, stefnt er að því að það verði góður upplýsingamiðill og vekji áhuga á ólíkum stöðum, ferðamöguleikum og afþreyingu.

Í fréttatilkynningu Arnkötlu kemur fram að greinum skal skilað til ritstjórnar fyrir 1. mars næstkomandi og netfangið er arnkatla2008@strandir.saudfjarsetur.is. Greinarnar þurfa ekki endilega að vera fullbúnar, þær mega vera í punktaformi ef viðkomandi treystir sér ekki til að skila fullbúinni grein og mun ritnefnd lesa yfir, endurbæta og lagfæra þar sem þörf þykir.

Blaðið á að koma út fyrir þann 29. mars en þá verður haldin stóra ferðasýning ársins í Fífunni í Kópavogi. Markaðsstofa Vestfjarða hefur ákveðið að kosta prentun á þremur svæðisbundum 8 blaðsíðna blöðum á Vestfjörðum og þetta blað er eitt þeirra. Brotið liggur ekki fyrir á þessari stundu. Markaðsstofan mun sjá um dreifingu þeirra í gegnum dreifikerfi sitt í samstarfi við Upplýsingamiðstöð Vestfjarða á Ísafirði. Öll ritstjórn er í höndum heimamanna og þeir raunar gerðir ábyrgir fyrir því að útgáfan takist. Ef ekki, þá er ekkert meira um það að segja og tilboð Markaðsstofu fellur þá niður.

Arnkatla 2008 mun sjá um aðra dreifingu á blaðinu um Strandir og Reykhólahrepp og stefnt er að því að það fari sem víðast, auk þess sem það mun liggja frammi á öllum viðkomustöðum ferðamanna á Arnkötlusvæðinu. Ef þörf er á þá mun Arnkatla bæta við fjórum blaðsíðum til viðbótar við þær sem Markaðsstofan kostar.

Ferðaþjónustuaðilum verður einnig boðið að auglýsa í blaðinu og kostnaði vegna þessa verður stillt í hóf. Eingöngu munu verða birtar ferðaþjónustuauglýsingar af svæðinu í blaðinu. Ritstjórn ferðablaðsins um Strandir og Reykhólasveit er skipuð Sigurði Atlasyni, Kristínu S. Einarsdóttur, Jóni Jónssyni ásamt Arnari S. Jónssyni sem kippt var inn á fundi ritstjórnar í gær. Allar uppástungur um efni blaðsins eru vel þegnar. Tillögur að gestapennum og raunar hvað sem er.

Í fréttatilkynningu Arnkötlu segir ennfremur: Það er 12. febrúar í dag og því 18 dagar til stefnu til að skila inn efni. Gangi okkur öllum vel. Einn, tveir og þrír og byrja!