30/10/2024

Unga fólkið heim – samkeppnisstaða okkar byggist á því

Aðsend grein: Anna Kristín Gunnarsdóttir
Framtíð Íslands byggist á ungu fólki sem hefur fengið tækifæri til að þroska hæfileika sína.  Þannig stenst þjóðin alþjóðlega samkeppni, þannig stöndumst við samkeppni við ódýrt vinnuafl í fjarlægari heimshlutum.  Aðeins með háþróuðu atvinnulífi munum við geta haldið góðum lífskjörum.  Og gleymum ekki að háþróuðu atvinnulífi fylgir fjöldi áhugaverðra starfa fyrir fólk með skemmri skólagöngu.

Samkeppni Íslands við útlönd má í raun færa yfir á íslenskt samfélag og spyrja:  Hvernig mun Norðvesturkjördæmi standa í samkeppni um ungt fólk innanlands?  Svari nú hver fyrir sig ef horft er á þær aðstæður sem okkur hafa verið skapaðar af stjórnvöldum undanfarin ár.

Mikið verk framundan

Það er vonandi öllum ljóst að okkur bíða risavaxin verkefni til þess að við stöndum jafnfætis þeim svæðum sem keppa harðast við okkur.  Samgöngur og háhraðatengingar, uppbygging menntastofnana jafnt á framhaldsskóla- sem háskólastigi, aukin fjölbreytni atvinnulífs og síðast en ekki síst jafnvægi í efnahagsmálum og stórbætt velferðarþjónusta fyrir alla landsmenn.  Þessi verkefni bíða nýrrar ríkisstjórnar.
Við skulum horfa blákalt á stöðuna hjá okkur og spyrja okkur hvort þeir sem haldið hafa um stjórntaumana undanfarin ár eiga atkvæði okkar skilið á laugardaginn kemur.

Áherslur Samfylkingarinnar

Samfylkingin leggur áherslu á velferð og jafnrétti í víðasta skilningi, þar með talið jafnrétti milli landshluta.  Það felur í sér að gert verður stórátak í samgöngumálum og uppbyggingu háhraðanets, fái Samfylkingin tækifæri til að stjórna á næsta kjörtímabili.  Stefnumótun okkar í menntamálum og uppbyggingu atvinnulífs gengur einnig út frá jafnrétti milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.  Formaður Samfylkingarinnar hefur sýnt í verkum sínum sem borgarstjóri Reykjavíkur að hún stendur við stóru orðin og kemur í verk því sem hún lofar.  Hún hefur, auk ofantalins, lofað að koma á launajafnrétti hjá ríkinu.  Það er ekki aðeins konum mikilvægt heldur hverju heimili á landinu.

Þeir undirstöðuþættir sem að ofan eru taldir þurfa að vera í lagi til að unga fólkið vilji búa á landsbyggðinni..  Samfylkingin hefur skilning og ætlar að skapa unga fólkinu tækifæri.

Samfylkingin á góða möguleika á þrem þingmönnum í Norðvesturkjördæmi.   Með þrem þingmönnum í kjördæminu verða áhrif okkar í ríkisstjórn mikil og sýnileg.

Verum því í S-inu okkar á kjördag.

Anna Kristín Gunnarsdóttir
Alþingismaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi