10/09/2024

Tryggjum Einari Oddi þingsæti

Aðsend grein: Guðný Helga Björnsdóttir
Síðasti fundur bænda og frambjóðenda til Alþingis var haldinn í Staðarflöt í Hrútafirði þann 30. apríl s.l. Ég vil þakka stjórn BÍ fyrir frumkvæðið að því að boða til þessara funda og jafnframt bændunum að Helgavatni í Borgarbyggð fyrir að bjóða fulltrúum frá framboðunum í heimsókn í aðdraganda kosninga og kynna fyrir þeim sýn bóndans á málunum. Mjög nauðsynlegt er að þeir sem vinna að framgangi landbúnaðar, sem og annarra greina, viti um hvað málin snúast. Ofmikið hefur borið á því að frambjóðendur til Alþingis eru ekki alveg með á nótunum þegar kemur að landbúnaðarmálum. Bændur þurfa að vita langt fram í tímann hver stefna stjórnvalda er, til að geta skipulagt sinn rekstur, því til að mynda er framleiðsluferill nautakjöts eða mjólkurkýr tæp 3 ár (með meðgöngu).

Í kjölfar fundarins birti heimasíða Bændablaðsins (www.bbl.is) frétt af fundinum, þar sem meðal annars eftirfarandi kom fram:

”Vel stæðar þjóðir styrkja landbúnað því þær vita að það borgar sig

Einar Oddur sagði að nýgerðir samningar við bændur myndu tryggja jafnar tekjur í nánustu framtíð. Hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn stæði vörð um hagsmuni bænda  og að innan flokksins væru ekki deilt um gildi landbúnaðar, það sýndi umfjöllun á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hann kvað fast að orði þegar hann sagði að íslenskir bændur ættu ekki að reyna að lækka verð á landbúnaðarvörum því það hefði alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir þjóðfélagið í heild. Einar Oddur sagði það sjálfsagt mál að ríkar og vel stæðar þjóðir eins og Ísland styrktu landbúnað því þær vissu að það borgaði sig. Um þjóðlendumálin sagði Einar Oddur að bændur gætu nú andað rólegar því skilningur væri á því að framkvæmd laganna hefði ekki verið með réttum hætti og ný vinnubrögð ættu að tryggja farsælar málalyktir.”

Bændur landsins eiga mjög öflugan málsvara á þingi í Einari Oddi. Hins vegar er umboðið sem við veittum honum að renna út, líkt og annarra þingmanna.  Við þurfum að sameinast um að veita honum aftur umboð til að vinna ötullega og af krafti að málefnum bænda og landsbyggðarinnar allrar, eins og hann hefur sannanlega gert undanfarin ár. Einar Oddur er 9. þingmaður Norðvesturkjördæmis á yfirstandandi þingi og síðasti kjördæmakjörni þingmaður þess. Við kosningarnar nú á laugardaginn fækkar þingmönnum kjördæmisins um einn vegna reglna um fjölda kjósenda á bak við hvern þingmann, þar með er þingsætið, sem Einar Oddur situr nú í, farið í Suðvesturkjördæmi. Við þurfum því að halda vel á spöðunum til að þingsæti hans sé tryggt næsta kjörtímabilið og því þurfum við að veita Sjálfstæðisflokknum okkar atkvæði.

Guðný Helga Björnsdóttir
skipar 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi