22/12/2024

Undur og stórmerki!

Hingað til hafa spár keppenda í tippleik strandir.saudfjarsetur.is verið frekar samhljóða og fá stig skilið menn að. Nú kveður hins vegar við nýjan tón því spekingar vikunnar, þeir Höskuldur Búi Jónsson og Jón Jónsson, eru ósammála um hvorki fleiri né færri en níu leiki af þrettán. Það er því útlit fyrir meiri spennu en nokkru sinni fyrr um helgina og ljóst að það verður geysilega athyglisvert að fylgjast með spám kappanna um helgina. Höski segir í lok spár sinnar að hann stefni að því að enda langa sigurgöngu Jóns, en Jón segist hins vegar láta tilfinninguna ráða í sinni spá. Það er alla vega öruggt að Liverpool aðdáendur af Ströndum verða að fara að krækja í sigur, en Arsenal maðurinn Jón hefur nú þegar lagt þrjá þeirra að velli. Spár og mjög svo ítarlegar umsagnir Jóns og Höska má sjá hér neðar:


1. Man. Utd. – Tottenham

Jón: Þetta er erfiðari leikur en lítur út í fyrstu. United menn hafa verið að reyna að taka Tottana á taugum í vikunni með því að senda menn í viðtöl til að tala um hvað Tottarnir séu snjallir og stabílir. Slíkur taugatrekkjandi undirbúningur hjá Ferguson hefur oft virkað, en sýnir líka að þeim líst ekki fullkomlega á leikinn. Tákn: X.
 
Höski: Fyrrum stórveldið Manchester United mun taka þetta, enda eru þeir í sárum eftir Evrópuleikinn í vikunni og koma öskrandi til leiks, þeir geta ekki spilað jafn illa og þá. Tákn: 1.
 
+++

2. Arsenal – Man. City

Jón: Henry kominn aftur eins og kom í ljós í Meistaradeildinni þar sem hann bætti markametið hjá Arsenal hjá mínum uppáhaldsleikmanni í gegnum tíðina – Ian Wright. Hann spilaði á þeim árum sem ég fylgdist ennþá vandlega með boltanum. Þá vann Arsenal alltaf leikina á móti City 2-0 og gera það líka núna. Tákn: 1.
 
Höski: Hér er fyrsta tilfinningin sú að veðja á sigur Arsenal, ég hugsa þó að Man. City muni stríða þeim og ná jafntefli á útivelli. Ef þessi leikur ræður ekki úrslitum þá veit ég ekki hvaða leikur gerir það. Tákn: X.
 
+++

3. Fulham – Liverpool

Jón: Liverpool hefur gengið illa að finna netið í deildinni til þessa, en þeir þurfa svo sem ekki að skora nema eitt mark til að vinna ef hinir skora ekkert. Held þeir nái ekki í toppbaráttuna á þessu ári. Veit ekki hvort Höskuldur er Liverpoolmaður eins og allir hinir sem ég hef keppt við, en þá flaskar hann væntanlega á þessum (og fleirum). Fulham potar líka inn einu. Tákn: X.
 
Höski: Cissé er kominn í stuð fyrir mína menn (Liverpool) og mun hann skora ef hann fær að spila. Þessi leikur verður einfaldlega að vinnast fyrir Liverpool, veit þó að hann verður erfiður og jafntefli er allt eins líklegt þar sem Liverpool á það til að detta niður eftir Evrópuleiki og þá sérstaklega á útivelli. Ég ætla þó að spá útisigri Liverpool. Tákn: 2.
 
+++

4. Aston Villa – Wigan

Jón: Wigan er spútnik liðið í september og október. Þeirri velgengni hlýtur að fara að ljúka, öll ævintýri taka enda. Tákn: 1.

Höski: Þessi leikur er reyndar nokkuð erfiður, en ég hef trú á nýliðum Wigan, enda hafa þeir sýnt það undanfarið að þeir geta orðið spútnik-lið deildarinnar. Wigan vinnur á útivelli. Tákn: 2.
 
+++

5. Portsmouth – Charlton

Jón: Eins og áður hefur komið fram hef ég litla trú á samherjum Rúriks Gíslasonar í Charlton. Þeir bregðast ekki væntingum mínum um helgina gegn slöku liði Portsmouth. Tákn: X.

Höski: Hér ætla ég að tippa á jafntefli, því þó Hermann Hreiðarsson og félagar í Charlton séu búnir að gera góða hluti  á útivelli í vetur og Portsmouth gengið illa, þá held ég að Portsmouth hangi á stiginu. Tákn: X.
 
+++

6. Stoke – Reading

Jón: Erfiður leikur, en Reading hefur reddað mér í alla vega tveim sigurumferðum þetta árið. Íslendingarnir í liðinu standa sig glimrandi vel. Trúi að svo verði enn. Tákn: 2.
 
Höski: Erfiður leikur að spá fyrir um, Stoke virðist vera með ágætt lið en sjálfstraust þeirra er ekki upp á sitt besta, veit ekki hvort heimavöllurinn dugi þeim þar sem Reading er búið að vera í toppformi upp á síðkastið. Tákn: X.
 
+++

7. Ipswich – Watford

Jón: Þessi er býsna erfiður, en Watford virðist vera að missa flugið eftir frábæra byrjun. Ætli Ipswich lagi ekki hjá sér markahlutfallið um helgina og vinni góðan sigur. Tákn: 1.
 
Höski: Ég ætla ekki að íhuga þetta einu sinni, ég mun tippa á heimasigur Ipswich. Tákn: 1.
 
+++

8. Wolves – Preston

Jón: Reikna með að Úlfarnir bíti frá sér í þessum leik. Það er kominn tími til að þeir sýni almennilega hvað í þeim býr. Tákn: 1.

Höski: Úlfunum hefur gengið herfilega undanfarið, en þeir byrjuðu deildina vel. Á móti þá hefur Preston gengið illa að fá fleiri en 1 stig í undanförnum leikjum og því veðja ég á að þessi leikur fari í jafntefli. Tákn: X.
 
+++

9. C. Palace – Burnley

Jón: Heimavöllurinn hefur nú ekki verið að virka neitt sérstaklega vel í annarri deildinni. Held samt að Palace eigi að merja sigur í þessum leik. Tákn: 1.

Höski: Crystal Palace tekur þennan leik auðveldlega á heimavelli. Tákn: 1.
 
+++

10. QPR – Norwich
 
Jón: Þessi getur nú farið á hvorn veginn sem er og gerir það væntanlega líka. Tákn: X.
 
Höski: QPR virðist ætla að vera í einhverju miðjumoði í vetur og hafa þeir átt í erfiðleikum að hala inn stig, jafnt á útivelli sem heimavelli. Norwich hefur aftur á móti gengið ágætlega undanfarið, fyrir utan tap á útivelli nú í vikunni. Jafntefli er líklegasta útkoman en ég ætla þó að taka áhættu og veðja á að Norwich vinni þennan leik. Tákn: 2.

+++

11. Millwall – Southampton

Jón: Southampton hefur nú ekki verið að standa undir væntingum þetta árið, því fer víðs fjarri. Ef þeir tapa fyrir botnliðinu er þó fokið í flest skjól. Tákn: 2.

Höski: Millwall hefur átt slaka deild hingað til, á botninum með 11 stig. Harry Redknapp og félagar ættu því að vinna Millwall þó þeim hafi ekki gengið sem skildi undanfarnar vikur. Tákn: 2.

+++
 
12. Hull – Derby

Jón: Þessi lið gera mikið af jafnteflum, bæði tvö. Derby er annars óstöðugt lið, getur unnið góð lið og tapað fyrir lélegum. Spái því að það síðarnefnda verði staðreynd um helgina. Ég vek athygli á að ég er ekki að spá Hull sigri heldur Derby tapi. Tákn: 1.
 
Höski: Jafntefli er líklegasta útkoman úr þessum leik og tippa ég á það. Tákn: X.

+++

13. Leicester – Coventry

Jón: Það er algjörlega vonlaust að spá í leiki með Coventry, þeir vinna aldrei þegar maður býst við því. Held hálfpartinn að þeir sigri óvænt þessa helgina og langar þess vegna til að spá heimasigri þvert ofan í þá tilfinningu. Fer samt milliveginn. Tákn: X.

Höski: Botnslagur, ég hugsa að heimaleikurinn ráði þar enda hefur Coventry ekki enn unnið á útivelli. Þeir hafa þó gert nokkuð mörg jafntefli á útivelli og því hefði verið skynsamlegt að tippa á það. Leicester tekur þetta. Tákn: 1.

 
+++
 
Jón: Síðast flétti ég upp í bókinni góðu í minni spá og fór algjörlega eftir því sem þar stóð. Það dugði til að leggja Halldór sem tók einn séns í sinni spá. Núna ætla ég hins vegar að leggja bókina á hilluna í eitt skipti fyrir öll og láta tilfinninguna ráða. Fell með sæmd eða sigra ella. Úrvalsdeildin er mjög farin að skýrast, mér virðist að WBA, Birmingham og Sunderland falli þetta árið og United, Arsenal og Tottenham berjist um annað sætið. Í annarri deildinni virðist hins vegar allt geta gerst og eflaust gerist það líka.

Höski: Það virðist vera erfitt að stöðva Jón Jónsson og hans sigurgöngu, ég sá að mistökin sem Halldór gerði var að veðja á óvænt úrslit. Ég hef ákveðið að læra ekki af reynslu Halldórs og veðja á nokkur óvænt úrslit, helst er þar að nefna Arsenal – Man. City, en þar spái ég jafntefli. Af öðrum leikjum þá virðist þessi seðill bjóða upp á slatta af erfiðum leikjum og var ég í bullandi vandræðum með að velja tákn, venjulega veðjar maður á heimaleiki þegar maður er í vafa en útkoman er þó sú að allmargir leikir hjá mér eru annaðhvort útisigur eða jafntefli, spurning hvort maður fari flatt á því. Sigurganga Jóns verður þó væntanlega stöðvuð núna, enda kominn tími til, það gengur ekki lengur að Arsenal maður vinni endalaust!