29/03/2024

Undarlegur fréttaflutningur á strandir.saudfjarsetur.is

Ásdís LeifsdóttirÁsdís Leifsdóttir sveitarstjóri Strandabyggðar hefur sent inn athugasemd við fréttaflutning á strandir.saudfjarsetur.is sem sé bæði rangur og undarlegur. Athugasemd hennar er birt hér að neðan, en þar kemur í ljós að ritstjóri hefur við gerð fréttar um barnaskólann gamla mislesið ártal í fundargerðinni. Bréf sem fjallað er um og Húsafriðunarnefnd vitnar í var frá árinu 2000 en ekki frá því í sumar. Þetta leiðréttist hér með og beðist er velvirðingar á mistökunum. Eins virðist af fundargerðinni að í umræddu bréfi Húsafriðunarnefndar frá síðustu aldamótum hafi verið rætt um húsið Hólmagötu 1, sem ekki sé til í sveitarfélaginu, en ekki gömlu slökkvistöðina.

Athugasemd Ásdísar Leifsdóttir er svohljóðandi:

"Í frétt þinni um gamla barnaskólann kemur þú með rangar upplýsingar sem ég myndi vilja fá leiðréttingu á. Í frétt þinni segir orðrétt:

"Í bréfi Húsafriðunarnefndar frá í sumar hafi hún mælt gegn niðurrifinu, en lagt til að gert yrði deiliskipulag fyrir svæðið í staðinn. Telur Húsafriðunarnefnd að ef sveitarfélagið hefði á þeim tíma orðið við fyrirmælum hennar hefði ekki þurft að koma til skyndifriðunar. Í fundargerðinni kemur fram að sveitarstjórn telur sig ekki geta véfengt þau rök Húsafriðunarnefndar."

Hið rétta er, og kemur skýrt fram í fundargerðinni, að umrætt bréf er sent 19. júlí 2000 vegna fyrirhugaðs niðurrifs á Hólmagötu 1 þar sem þeir andmæla því niðurrifi og leggja í staðinn til að gert verði deiliskipulag af svæðinu.  Og þeirra röksemdarfærsla er sú að hefði það deiliskipulag verið gert þá hefði ekki þurft að beita skyndifriðun vegna Kópnesbrautar 4b árið 2006.  Þetta telur núverandi sveitarstjórn sig ekki geta véfengt þar sem hún var ekki við völd þá, hefur ekki séð umrætt bréf og veit ekki einu sinni hvar Hólmagata 1 er.  Í það minnsta finnst hún ekki í Hólmavíkurbókinni."

Fundargerð sveitarstjórnar sem um er rætt má finna hér á vefnum undir vefsvæði Strandabyggðar.