22/12/2024

Umhverfismat vegna Vonarholtsvegar

Náttúrustofa Vestfjarða hefur á árinu unnið að umhverfismatsskýrslu vegna Vonarholtsvegar um Arnkötludal og Gautsdal. Þessi vinna er nú á lokastigi og matsskýrslan verður send Skipulagsstofnun nú um hátíðarnar. Skipulagsstofnun auglýsir svo matsskýrsluna tveim vikum síðar, þannig að búast má við því ekki síðar en um miðjan janúar. 

Umhverfismatsskýrslur eru kynntar í fjölmiðlum, á vefsíðum framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnunar og lesendur strandir.saudfjarsetur.is geta treyst því að opnuð verður slóð að matsskýrslunni um Vonarholtsveginn um leið og hún verður auglýst. 

Forstöðumaður Náttúrustofu Vestfjarða tjáði tíðindamanni strandir.saudfjarsetur.is að búast mætti við kynningarfundum með íbúum á framkvæmdarsvæðinu 2-3 vikum frá auglýsingu Skipulagsstofnunar.

Kynningartímabil framkvæmdar frá auglýsingu er 6 vikur en þá lýkur jafnframt fresti til að gera athugasemdir við umhverfismatið. Öllum er heimilt að gera athugasemdir, þær verða að vera skriflegar og hafa borist fyrir lok tilskilins frests. Athugasemdir sem berast á kynningartíma er hluti þeirra gagna sem Skipulagsstofnum tekur afstöðu til er hún kveður upp úrskurð sinn. 

Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is hefur hlerað að landeigendum og íbúum í nágrenni framkvæmdarsvæðisins hafi þótt kynning og samráð við umhverfismatsvinnuna vera óþarflega lítið. Þess má því vænta að væntanlegir kynningarfundir verði fjölsóttir.