03/05/2024

Umhverfisdagur á föstudag

Föstudaginn 15. apríl verður Umhverfisdagur Grunnskólans á Hólmavík haldinn hátíðlegur og af því tilefni fær skólinn til sín góða gesti frá Grunnskólnaum á Drangsnesi og Grunnskólanum á Reykhólum. Dagurinn er undirlagður margvísleg umhverfistengd verkefni og hefst á smiðjuvinnu sem fer fram innandyra þar sem nemendum er skipt eftir aldursstigi. Yngsta stigið, 1.-4. bekkur, vinnur í töskugerð þar sem endurunnið efni er notað til að skapa nýja afurð. Á miðstigi, 5.-7. bekkur, er unnið að skartgripagerð og á unglingastigi, 8.-10. bekk er unnið að skiltagerð með umhverfisslagorðum.

Klukkan 10:30 hefst síðan ratleikur í umsjón 10.bekkjar. Nemendum allra skólanna er skipt í lið sem leysa léttar þrautir í umhverfi skólans. Klukkan 11:10 er síðan skemmtidagskrá þar sem nemendur sýna ýmislegt sem þeir hafa verið að hanna og dúllast við í vetur, farið í leiki og fleira. Þessi dagskrá fer fram á skólalóðinni og í skógarlundi fyrir aftan skólann. Klukkan 12:00 er síðan söngstund og hressing utandyra.