23/12/2024

Um taflhús í tilefni af Fischer

Tafl- og bridgefélagshúsið á HólmavíkUm miðjan sjötta áratug síðustu aldar var byggt á Hólmavík eina húsið á Íslandi sem byggt hefur verið í þeim tilgangi að tefla í. Húsið var byggt úr viðjum íbúðarhússins sem stóð Í Vatnshorni í Þiðriksvalladal. Þetta er rifjað upp hérna á strandir.saudfjarsetur.is í tilefni af því að Bobby Fischer, fyrrverandi heimsmeistari í skák, er orðinn íslenskur ríkisborgari frá og með deginum í dag en hann hefur setið í fangelsi í Japan um margra mánaða bil vegna vegabréfsvandræða.

Óli G. Björnsson teiknaði Tafl- og bridgefélagshúsið en hann var ritari félagsins á þeim tíma sem ákveðið var að ráðast í það stórvirki að byggja yfir taflmenn og spilakónga.

Húsið var tekið formlega í notkun í janúar árið 1958. Í húsinu var héraðsbókasafnið geymt um tíma og þar var trésmíðaverkstæði um fárra ára bil fyrir ekki mörgum árum. Mörg ár eru síðan Tafl- og bridgefélagshúsið var notað síðast í upprunalegum tilgangi, en það er sannarlega minnisvarði um mikinn áhuga á skáklistinni á Hólmavík.

Eflaust hefur verið skeggrætt í húsinu um frammistöðu þeirra Fischers og Spassky í "einvígi aldarinnar" árið 1972 sem haldið var í Laugardalshöll í Reykjavík, og er undanfari þess að Bobby Fischer er orðinn Íslendingur rúmum þremur áratugum síðar.

.