23/12/2024

Torfæruhjólabraut við Hólmavík

Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefnd Strandabyggðar tók á dögunum fyrir umsókn um landsvæði fyrir torfæruhjólabraut. Forsaga málsins er að borist hafði erindi og undirskriftalisti með 33 nöfnum þar sem sóst er eftir landsvæði til að útbúa slíka braut sem yrði afgirt og loforð gefið um að henni yrði haldið snyrtilegri. Nefndin, sem gengur undir nafninu BUS, samþykkti samhljóða að verða við þessu erindi og sveitarstjórn hefur nú staðfest þá niðurstöðu.

Þau skilyrði eru sett af hálfu sveitarfélagsins að Einar Indriðason verkstjóri í áhaldahúsi hreppsins verði með í ráðum varðandi afmörkun svæðisins og að öll leyfi sem þörf sé á verði fengin. Ekkert kemur fram um hugsanlega staðsetningu í fundargerðum, en reikna má með að brautin verði í nágrenni Hólmavíkur.