05/10/2024

Töluvert um að vera um helgina á Ströndum

580-ihatid4

Það er ýmislegt um að vera um helgina á Ströndum. Laugardaginn 14. des. kl. 14:30 er svokallað Laugardagsfjör í íþróttahúsinu á Hólmavík. Það er íþróttatími fyrir alla fjölskylduna, börn, unglinga, foreldra, ömmur og afa og alla sem langar í smá fjör. Það eru Ingibjörg Benediktsdóttir og Sverrir Guðmundsson sem sjá um tímann sem byrjar kl 14:30. Heyrst hefur að jólaveinarnir hafi áhuga að bæta heilsu sína og jafnvel að taka þátt í tímanum. DVD-dagur sem auglýstur hafði verið með dreifibréfi í Félagsheimilinu kl. 17:00 fellur hins vegar niður.

Á sunnudag er frjálsíþróttamót HSS innanhúss í Íþróttamiðstöðinni og hefst kl. 11:00. Allir eru velkomnir og hægt að skrá sig til þátttöku á staðnum. Danmerkurfarar selja samlokur á íþróttamótinu og þeir standa svo fyrir stóru jólabingói í félagsheimilinu á Hólmavík kl. 16:00. Um kvöldið verða svo stórtónleikar á Drangsnesi þar sem Sigríður Thorlacius og fleiri troða upp á Mölinni.