14/09/2024

Tilkynning um þátttöku í prófkjöri Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi

Fréttatilkynning:
Sigurður Pétursson sagnfræðingur og bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ gefur kost á sér í eitt af forystusætunum í prófkjöri Samfylkingarinnnar í Norðvesturkjördæmi sem fram fer á laugardag og sunnudag. Sigurður er fæddur og uppalinn á Ísafirði. Foreldrar hans eru Pétur Sigurðsson formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Hjördís Hjartardóttir tryggingafulltrúi hjá Sýslumannsembættinu á Ísafirði. Sigurður er giftur dr. Ólínu Þorvarðardóttur og eiga þau fimm börn.

„Málefni landsbyggðarinnar þurfa öflugan málsvara á Alþingi Íslendinga,“ segir Sigurður í fréttatilkynningu. „Brýnastar eru bættar samgöngur og úrbætur í atvinnumálum. Ný sókn í atvinnumálum byggir á fjölbreytni í framleiðslu og þjónustu; háskóla- og rannsóknarstarfsemi;  umbótum í sjávarútvegi og skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda. Ég vil að staðinn sé vörður um afkomuöryggi, velferðarþjónustu og jafnrétti til náms undir merkjum jafnaðarstefnunnar. Samfylkingin er brjóstvörn launþega og neytenda í landinu.“

Sigurður varð stúdent frá Menntaskólanum á Ísafirði  árið 1978. Lauk BA-prófi í sagnfræði og mannfræði 1984 og Cand. mag. prófi í sagnfræði árið 1990. Hefur starfað sem kennari við Flensborgarskólann í Hafnarfirði, Verslunarskóla Íslands og Menntaskólann á Ísafirði, en vinnur nú að ritun sögu verkalýðshreyfingar á Vestfjörðum.  Hann var formaður Sambands ungra jafnaðarmanna 1990-1994 og átti á sama tíma sæti í framkvæmdastjórn Alþýðuflokksins. Í stjórn Neytendasamtakanna 1998-2002. Sigurður hefur verið formaður Samfylkingarinnar í Ísafjarðarbæ frá 2005 og ábyrgðarmaður landsmálablaðsins Skutuls.