22/12/2024

Þorrablót Átthagafélagsins

Nú á nýju ári fara Strandamenn að huga að þorramatnum og þorrablótunum og fyrstir til verða félagar í Átthagafélagi Strandamanna. Í nýútgefnu fréttabréfi þeirra kemur fram að árlegt þorrablót Átthagafélagsins verður haldið laugardaginn 15. janúar í Versölum, Hallveigarstíg 1 í Reykjavík. Borðhald hefst kl. 20:00 stundvíslega og veislustjóri er Karl E. Loftsson. Skemmtiatriði verða heimatilbúin og Ragnar Torfason sér um fjöldasönginn.


Dansatriði og happdrætti verða á sínum stað, veglegt að vanda. Loks mun hljómsveitin Upplyfting leika fyrir dansi til kl. 3:00. Miðasala og borðapantanir fara fram í Versölum fimmtudaginn 13. janúar kl. 17:00-19:00. Miðaverð er kr. 4.200.-