22/12/2024

Þörfin á þriggja fasa rafmagni skoðuð

Nefnd á vegum Iðnaðarráðuneytis vinnur nú að úttekt á hvar sé þörf á þriggja fasa rafmagni í dreifbýli landsins og hafa sveitarfélögin verið beðin um að skila inn upplýsingum um stöðu mála á sínu svæði. Í skriflegu svari Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar um stöðu mála við þrífösun rafmagnslína í dreifibýli á Alþingi í haust kom fram að 38% lögbýla á landinu hefur ekki aðgang að 3ja fasa rafmagni. Einnig kom fram í svarinu sem fylgir í heild sinni hér að neðan að eitt stærsta verkefnið sem liggur fyrir hjá Orkubúi Vestfjarða ohf. eru viðamiklar framkvæmdir við endurnýjun dreifikerfis við innanvert Ísafjarðardjúp, sem felur m.a. í sér lagningu þriggja fasa strengs milli Hólmavíkur og Nauteyrar.

Þskj. 245  —  98. mál.
Svar iðnaðarráðherra við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar um þrífösun rafmagns.

1. Hve mörg lögbýli og þorp eiga ekki kost á tengingu við þriggja fasa rafmagn og hvernig skiptast þau eftir landshlutum? 

Samkvæmt upplýsingum frá Rarik ohf. og Orkubúi Vestfjarða ohf. hafa öll þorp og þéttbýliskjarnar aðgang að þriggja fasa rafmagni. Í október 2007 höfðu 2.489 lögbýli, eða 38% lögbýla í landinu, ekki aðgang að þriggja fasa rafmagni.

Tafla 1: Fjöldi lögbýla án þriggja fasa rafmagns, skipt eftir landshlutum.

Vesturland 437
Vestfirðir 50
Norðurland 1.170
Austurland 351
Suðurland 481
Samtals 2.489

2. Hve margir raforkukaupendur fá aðgang að þriggja fasa rafmagni árin 2006 og 2007 og hvernig skiptast þeir landfræðilega? 

Á árinu 2006 og til loka október 2007 hafa 353 lögbýli fengið aðgang að þriggja fasa rafmagni, sjá töflu 2. Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að styrkingu og endurnýjun á háspennukerfi í dreifbýli. Öll endurnýjun er með jarðstrengjum sem koma í stað loftlína og eru nýju strengirnir þriggja fasa. Í flestum tilvikum eru settar upp þriggja fasa spennistöðvar og notendur hvattir til að taka inn þriggja fasa tengingu um leið og framkvæmdir standa yfir en þá geta þeir fengið slíka tengingu sér að kostnaðarlausu. Samkvæmt upplýsingum Rarik ohf. kjósa aðeins 10–20% eigenda lögbýla að tengjast við þriggja fasa rafmagn um leið og kostur gefst. Aðrir kjósa að tengjast að nokkrum tíma liðnum, en sumir meta ekki þörf á því að taka upp þriggja fasa tengingu.

Tafla 2: Fjöldi lögbýla sem fengu aðgengi að þriggja  fasa kerfi 2006–2007, skipt eftir landshlutum.

Vesturland 69
Vestfirðir 10
Norðurland 108
Austurland 89
Suðurland 77
Samtals 353

3. Hve miklu fé er varið á þessu ári til þrífösunar rafmagns í dreifbýli?

Uppbygging á þriggja fasa dreifikerfi rafmagns helst í hendur við almenna endurnýjun og uppbyggingu á dreifikerfinu og er sjaldnast um sérstakar aðgerðir að ræða sem einvörðungu snúa að því að tengja þriggja fasa rafmagn. Á árinu 2006 varði Rarik ohf. um 500 millj. kr. til að endurnýja og styrkja dreifikerfið. Gert er ráð fyrir að fyrirtækið verji svipaðri fjárhæð til dreifikerfisins á þessu ári og á árinu 2008. Orkubú Vestfjarða ohf. varði um 43 millj. kr. til framkvæmda í dreifikerfinu á árinu 2006 og áætlar að verja til þessa um 30 millj. kr. á árinu 2007 og 25 millj. kr. á árinu 2008.

4. Liggur fyrir kostnaðargreind framkvæmdaáætlun og pólitísk stefnumörkun um lagningu þriggja fasa rafmagns til þeirra staða sem ekki hafa aðgang að því nú, sbr. svar iðnaðarráðherra um það efni frá 131. löggjafarþingi (104. mál)?

Árið 2002 var birt skýrsla þar sem metin var þörf fyrir uppbyggingu á þriggja fasa raforkukerfi og kostnaði við hana. Við gerð skýrslunnar var leitað til sveitarfélaga í landinu og þeim falið að koma með ábendingar um þörf og forgangsröðun á þriggja fasa rafmagni í viðkomandi sveitarfélagi. Endurbætur á dreifikerfinu hafa á undanförnum árum stuðst við þær ábendingar sem fram koma í skýrslunni.

Eins og áður segir þá helst uppbygging á þriggja fasa dreifikerfi í hendur við endurnýjun og uppbyggingu á dreifikerfinu og sjaldan er um að ræða sérstakar framkvæmdir eingöngu til að koma á þrífösun. Í áætlunum raforkufyrirtækja um uppbyggingu og endurnýjun dreifikerfisins felst því áætlun um þrífösun.

Á svæðum þar sem háspennudreifikerfi er enn einfasa er hægt að fá aðgang að þriggja fasa rafmagni með því að notað svokallaða „rafhrúta“ til að búa til þriggja fasa rafmagn svo hægt sé að knýja stærri þriggja fasa mótora. Þennan búnað er hægt að leigja hjá Rarik ohf. Einnig er hægt að nota hraðabreyta fyrir minni mótora.

Samkvæmt áætlun Rarik ohf. er áætlað að heildarkostnaður við að endurnýja það sem eftir er af einfasa dreifikerfi sé um 12–13 milljarðar króna. Á undanförnum árum hefur Rarik ohf. endurnýjað um 150 km á ári af dreifikerfi sínu og nú er eftir að endurnýja um 3.700 km af einfasa línum í dreifbýli. Á veitusvæði Orkubús Vestfjarða ohf. liggur ekki fyrir framkvæmdaáætlun fyrir allt veitusvæðið með tilliti til endurnýjunar og uppbyggingar, en stærsta verkefnið sem fyrirtækið stendur fyrir á næstunni eru viðamiklar framkvæmdir við endurnýjun dreifikerfis við innanvert Ísafjarðardjúp, sem felur m.a. í sér lagningu þriggja fasa strengs milli Hólmavíkur og Nauteyrar. 

Á haustmánuðum skipaði ráðherra vinnuhóp sem m.a. er falið að endurmeta þörf atvinnulífs á landsbyggðinni fyrir þriggja fasa rafmagn ásamt því að gera nýtt mat á kostnaði við að tryggja öllum landsmönnum aðgang að því. Í starfshópnum eiga sæti fulltrúar frá iðnaðarráðuneyti, Rarik ohf. og Orkubúi Vestfjarða ohf.

Það eru ekki fyrirætlanir um að ríkið leggi fram sérstaka fjármuni til að hraða endurnýjun og uppbyggingu raforkudreifikerfisins. Hins vegar er það vilji stjórnvalda að Rarik ohf. og Orkubú Vestfjarða ohf., sem eru að fullu í eigu ríkisins, hraði eins og kostur er endurnýjun dreifikerfisins án þess þó að það leiði til hækkunar á almennri gjaldskrá fyrir dreifingu rafmagns.