26/12/2024

Þjófnaður í Gvendarlaug í Bjarnarfirði kærður til lögreglu

Aðfaranótt síðasta þriðjudags var brotist inn í sundlaugina í Bjarnarfirði og stolið þaðan kassa þeim sem heiðvirðir gestir laugarinnar greiða aðgangseyrir í. Nokkra fyrirhöfn hefur þurft til að ná kassanum en hann var bundinn með keðju í borð undir honum. Þjófunum hefur tekist að komast í gegnum lúgu þar í anddyrinu. Sundlaugin í Bjarnarfirði er rekin af Strandagaldri sem rekur einnig Galdrasafnið á Hólmavík og Kotbýli kuklarans. Krossviðskassinn er um það bil 15 cm í þvermál og 30 cm hár. Í honum hefur að öllu líkindum verið yfir 20 þúsund krónur, mest í smámynt. Þjófnaðurinn og innbrotið hafa verið kærð til lögreglunnar á Hólmavík sem fer með rannsókn málsins. Ef einhverjir hafa upplýsingar um mannaferðir í sundlaugina þessa nótt eru þeir beðnir um að snúa sér til lögreglunnar.