26/12/2024

Tekist á um stefnuna í sveitarstjórn Strandabyggðar

Frá smábátabryggjunniÁ fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í gær var lögð fram til samþykktar bókun frá varaoddvita sem tengist stefnumörkun fyrir gerð fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins. Er í henni fjallað um fyrirhugaðar framkvæmdir á næsta ári, eflingu atvinnulífsins og tekið sérstaklega fram að ekki verði lögð niður þjónusta eða stofnanir á vegum sveitarfélagsins. Var bókunin síðan borin undir atkvæði og samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur. Í framhaldi af því lagði minnihluti fram bókun þar sem stefna meirihlutans er sögð óábyrg. Ekki er ætlunin að fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 liggi fyrir fyrr en í janúar. Bókanirnar eru svohljóðandi:

Bókun lögð fram af varaoddvita Strandabyggðar og samþykkt með 3 atkvæðum gegn 2:

 „Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir að við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2009 verði miðað við að ekki verði lögð niður þjónusta eða stofnanir á vegum sveitarfélagsins, þótt leitast verði við að finna leiðir til að hagræða og minnka kostnað. Í vinnslu eru tillögur frá millistjórnendum um hagræðingu og aðhald í rekstri og verður farið yfir þær með það fyrir augum að lækka rekstrarkostnað.

Sveitarstjórn samþykkir að leggja sitt af mörkum við að halda uppi atvinnustigi á svæðinu og hafa jákvæð áhrif á mannlíf og byggðaþróun. Við framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins verði horft til þess hvar þörfin er brýnust og leitast við að ráðast í verkefni sem skila sveitarfélaginu ávinningi til langs tíma litið. Sérstaklega verði horft til verkefna sem geta stuðlað að atvinnusköpun í sveitarfélaginu og er þar m.a. horft til samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða. Einnig leitast við að skapa atvinnulífinu aðstæður til að vaxa og dafna.

Lögð verði áhersla á umhverfisverkefni á árinu 2009 og framkvæmdum á skólalóð haldið áfram, auk annarra verkefna. Þá samþykkir sveitarstjórn að áfram verði unnið að aðalskipulagi og deiliskipulagi þar sem þörf krefur. Auk þess verði áhersla lögð á undirbúning fyrir unglingalandsmót 2010 og vinnu við fjármögnun þess verkefnis. Undirbúið verði útboð vegna gatnaframkvæmda og unnið að viðhaldi á eigum sveitarfélagsins. Haldið verði áfram framkvæmdum við vatnsveitu.“ 

Bókun minnihluta sveitarstjórnar, H-lista:

„Minnihluti sveitarstjórnar telur að bókun meirihlutans sé mjög óábyrg og gefi væntingar umfram getu. Ekki er sýnt fram á raunhæfa fjármögnun fyrir þeim framkvæmdum sem verið er að samþykkja að fara í.“