29/04/2024

Teistuvarpið rannsakað áfram

Teistur á KirkjubóliÍ tímaritinu Náttúrufræðingnum var í vetur grein eftir fuglafræðingana Jón Hall Jóhannsson og Björk Guðjónsdóttir um teistuvarp á Ströndum, þar sem fram kom að grípa þurfi til sérstakra aðgerða til að koma í veg fyrir að teistuvarp á Ströndum líði undir lok. Árið 1955 var teistuvarp þekkt á tæplega 40 stöðum á Ströndum, sunnan Ingólfsfjarðar og að Kjörseyri í Hrútafirði. Nú eru aðeins fá vörp eftir sem eitthvað kveður að og öll á svæðinu frá Skeljavík við Hólmavík og að Broddanesi. Svo virðist sem nálægð við mannabústaði og umferð veiti teistunni vernd. Jón Hallur og Björk voru á Ströndum dagana 20.-27. júlí við að merkja og telja unga og reyndist fjöldinn vera í meðallagi síðustu 16 ára, en varpið hefur gengið mjög misjafnlega eftir svæðum.

Teistustofninn á Ströndum er á bilinu 135-195 pör og síðustu árin hefur orðið fækkun síðustu árin í Kollafjarðarnesi og Broddanesi þar sem afrán minks er mest, teistuvarpið í Húsavík, Skeljavík og á Heydalsá standa nokkurn veginn í stað og fjölgun hefur orðið á Kirkjubóli.

Niðurstaða Jóns Halls og Bjarkar í greininni sem birtist í vetur er að framtíð þeirra teistuvarpa sem eftir eru á Ströndum sé ótrygg og markvissar aðgerðir þurfi ef koma eigi í veg fyrir að þau líði undir lok. Lokaorð greinarinnar eru eftirfarandi: "Sem verndaraðgerðir mætti hugsa sér öfluga minkaleit sem miðaði sérstaklega að því að vernda teistubyggðirnar og samhliða þyrfti að friða teistu fyrir skotveiðum, svo tvennt það mikilvægasta sé nefnt. Að öðrum kosti er líklegt að teista hverfi að mestu eða öllu leyti sem varpfugl á Ströndum áður en langt um líður."

"Varpárangur teistu við sunnanverðan Steingrímsfjörð, Kollafjarðarnes og Broddanes
Talning og merkingar 20.- 27. júlí 2008 – minnisblað Jón Hallur Jóhannsson og Björk Guðjónsdóttir

Fjöldi merktra teistuunga reyndist í meðallagi (16 ára meðaltal) eða 186 ungar. Þess ber þó að geta að ungar voru víða á mjög mismunandi þroskastigi og sumstaðar var legið á eggjum eða ungar að skríða úr eggjum (truflun / seinkun varps). Á þessum tíma ættu teistuungar að vera að nálgast það að yfirgefa holur. Tvö varpsvæði (Kollafjarðarnes, Broddanes) urðu fyrir stóráföllum vegna afráns eða truflunar en afkoma á einu (Heydalsá) var mjög góð.

Skeljavíkursvæðið: Greinileg truflun og varpi seinkað. Ungar víða litlir (jafnvel að skríða úr eggjum!) og í 2 byggðum af 5 hafði ekki verið reynt varp.

Víðidalsársvæðið (tekur einnig yfir Hrófárhólma): Varp með minna móti og ungar litlir. Minks varð vart í Hrófárhólma þar sem hann hafði drepið 4 nær fullgerða unga úr þeim 2 hreiðrum sem þar eru.

Húsavíkursvæðið: Varp virðist hafa farið vel af stað og þeir ungar sem náðust voru stórir. Hundur hafði hins vegar grafið upp mörg hreiður og drepið unga.

Kirkjubólssvæðið: Varpi virðist hafa seinkað og voru ungar sums staðar að skríða úr eggjum! Ekki hafði verið reynt varp í 1 af 5 byggðum (að því undanskildu að þar lá einn fugl á eggjum!)

Heydalsársvæðið: Þar var mjög blómlegt varp að þessu sinni í öllum byggðunum 4. Ungar stórir (við það að yfirgefa holur) og varpárangur góður.

Kollafjarðarnessvæðið: Þar virtist ekki hafa verið reynt varp í neinni af 6 byggðum og engin teista sást.

Broddanessvæðið (Traðarnes): Enginn lifandi ungi. Varp virtist hafa verið reynt í nokkrum holum (af 60 þekktum). Í sumum þeirra höfðu egg verið yfirgefin, í öðrum höfðu ungar greinilega komið úr eggi en verið fjarlægðir litlir. Engin teista sást."

 bottom

natturumyndir/580-teistur4.jpg

Teistur á Kirkjubóli – ljósm. Jón Jónsson