12/12/2024

Sumarhátíð í Sævangi

Sumarhátíð Sauðfjársetursins í Sævangi verður haldin á sunnudaginn og hefst kl. 14:00. Að venju verður veglegt kaffihlaðborð á boðstólum og einnig verður farið í margvíslega leiki á vellinum. Þá er að venju haldin árleg kraftakeppni þar sem barist er um titilinn Sterkasti Strandamaðurinn. Sverrir bassi Guðbrandsson sem unnið hefur þann titil í karlaflokki síðan þessi keppni hófst fyrir þremur árum verður fjarri góðu gamni og því er kjörið tækifæri fyrir aðra að sýna kraftana og krækja í titilinn í ár. Svanhildur Jónsdóttir frá Steinadal hefur titil að verja í kvennaflokki. Á þessari síðu á vef Sauðfjársetursins gefur að líta myndir frá keppninni í fyrra sem var óvenju hörð og skemmtileg.