16/10/2024

Styrkur til Kotbýlis kuklarans

Fjármögnun við uppbyggingu Kotbýli kuklarans á Klúku þokast í rétta átt.Þau ánægjulegu tíðindi bárust forsvarsmönnum Strandagaldurs í dag að Ferðamálaráð hefði ákveðið að styrkja uppbyggingu á Kotbýli kuklarans að Klúku í Bjarnarfirði, annan áfanga Galdrasýningar á Ströndum með framlagi upp á 2 milljónir króna.

Alls bárust Ferðamálaráði 146 umsóknir um styrki til úrbóta á ferðamannastöðum á yfirstandandi ári en auglýst var eftir umsóknum um styrki um miðjan desember síðastliðinn. Umsóknirnar voru afgreiddar á fundi Ferðamálaráðs í dag og hlutu 53 verkefni styrk að þessu sinni. Til úthlutunar voru samtals um 40 milljónir króna sem skiptist í þrjá flokka en sótt var um samtals 236.482.000 krónur.

Þessi styrkur er mjög mikilvægur fyrir uppbygginguna í Bjarnarfirði sem hefur staðið yfir í nokkur ár og gerir það væntanlega að verkum að áætlanir um opnun áfangans gangi eftir í sumar. Kotbýlið sjálft er fokhelt um þessar mundir en eftir er að vinna mikla hugmyndavinnu við hönnun sýningarinnar og við hönnun og gerð sýningar- og afþreyingarsvæðis í kringum býlið.

Gert er ráð fyrir að 8.ooo gestir heimsæki svæðið í sumar.

Myndirnar hér að neðan eru frá sjálfboðaliðahelgi haustið 2002.

.

Guðjón Kristinsson frá Dröngum og Björk Bjarnadóttir, þjóðfræðingur og starfsmaður Galdrasýningarinnar síðasta sumar.

.

Ólafur Ingimundarson (Lói) mundar hamarinn, jafnvígur á báða enda hans.

.

Helga Lilja (móðir Ólafs Stefánssonar handboltakappa) og Ragnar Edvaldsson fornleifafræðingur bíða eftir næsta farmi af sniddum til að takast á við.

.

Guðjón á Dröngum stjórnar rösklega fríðum og röskum hópi sjálfboðaliða á þaki kotbýlisins.

Á kvöldin var það bara haft huggulegt og drukkið eins mikið öl og menn gátu í sig látið, áður en þeir láku niður af þreytu.