22/12/2024

Styrkir til verkefna í Árneshreppi

Árneshreppur er þátttakandi í verkefni Byggðastofnunar um Brothættar byggðir og hefur verkefnið í Árneshreppi yfirskriftina Áfram Árneshreppur! Nú hefur sjö milljónum verið úthlutað til átta samfélagseflandi verkefna í Árneshrepp í tengslum við verkefnið, en þetta kemur fram á vef Byggðastofnunar. Þar segir ennfremur að verkefnissstjórnin hafi fundað í Árneshreppi og heimsótt nokkra styrkþega: „Dagurinn byrjaði á Hótel Djúpavík þar sem verkefnisstjórn fékk kynningu á verkefninu „Afþreyingartengd ferðaþjónusta í Árneshrepp“ sem miðar að því að setja á stokk einstaklingsmiðaðar gönguleiðsagnir um Árneshrepp.“ Einnig var verkefnið „Í nýju ljósi“ kynnt, en það miðar að því að endurnýja lýsingar í Sögusýningunni í síldarverksmiðjunni í Djúpavík.

Á vef Byggðastofnunar segir ennfremur: „Næst var Badda Fossdal á Melum sótt heim og bauð hún verkefnisstjórninni upp á heimalagaðar kleinur og kaffi og sagði frá stöðu verkefnisins „Kjötvinnsla“. Verkefnið miðar að því að þróa kjötafurðir úr Árneshreppi og er nú unnið að þróun viðskiptaáætlunar og hönnunar. Að lokum var  kíkt inn í Kaupfélagið en Ólafur Valsson fékk styrk til þess að útvíkka núverandi verslunarrekstur og draga úr rekstrarkostnaði heilsársverslunar með það að markmiði að starfandi yrði heilsársverslun í Árneshreppi.“

Verkefnastjóri verkefnisins Áfram Árneshreppur! er Skúli Gautason, menningarfulltrúi Vestfjarða.

Hér er yfirlit um styrkþega, verkefni og styrki sem veittir voru að þessu sinni:

Ólafur Valsson, Skútulægi í Norðurfirði, kr. 1.000.000,-

Ólafur Valsson, Verslun í Norðurfirði, kr. 1.500.000,-

Óstofnað félag sauðfjárbænda, Kjötvinnsla, kr. 1.100.000,-

Sif Konráðsdóttir, Norður-Strandir Super Jeep Tours, kr. 500.000,-

Elín Agla Briem, Þjóðmenningarskólinn Ströndum norður, kr. 800.000,-

Vigdís Grímsdóttir, Skóli, kr. 700.000,-

Hótel Djúpavík, Í nýju ljósi, kr. 700.000,-

Hótel Djúpavík, Aþreyingartengd ferðaþjónusta í Árneshrepp, kr. 700.000,-