22/12/2024

Styrkir til umhverfismála auglýstir

Nú er búið að opna fyrir styrkumsóknir til Ferðamálastofu til umhverfismála, náttúruverndar og úrbóta á ferðamannastöðum fyrir árið 2008 og er umsóknarfrestur til 28. janúar 2008. Bróðurparti þeirra fjármuna sem varið er til umhverfismála af hálfu stofnunarinnar er úthlutað í styrkjaformi og skiptist upphæðin í þrjá meginflokka: Í fyrsta lagi eru styrkir til minni verkefna. Jafnan er lögð áhersla á einn tiltekin málaflokk á hverju ári og þetta árið er aðgengi fyrir alla áhersluatriðið. Í öðru lagi eru styrkir til stærri verkefna á fjölsóttum ferðamannastöðum og í þriðja lagi eru veittir styrkir til uppbyggingar á nýjum svæðum.

Allir sem hagsmuna eiga að gæta mega sækja um styrk að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru fram í auglýsingu. Við úthlutun er m.a. tekið mið af ástandi og álagi svæða og mikilvægi aðgerðanna vegna náttúruverndar. Nauðsynlegt er að framkvæmdir stangist ekki á við gildandi skipulag og séu unnar í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir, landeigendur, náttúruverndarnefndir og aðra aðila sem með málið hafa að gera s.s. Umhverfisstofnun.

Umsóknir eru sendar í gegnum vefinn á rafrænu umsóknareyðubaði sem aðgengilegt á meðan umsóknarfrestur er í gildi. Einnig er hægt að skila inn skriflegum umsóknum á eyðublöðum sem fást á skrifstofu Ferðamálastofu, Strandgötu 29, 600 Akureyri.

Við veitingu styrkja er tekið mið af eftirfarandi forgangsröð:
1. Náttúruvernd
2. Upplýsingar og öryggismál
3. Áningarstaðir
4. Annað

Ekki verður sérstaklega litið til dreifingar verkefna eftir landshlutum. Nánari upplýsingar má finna á vef Ferðamálastofu.