22/12/2024

Sturla segðu satt – Arnkötludal verður seinkað

Aðsend grein: Kristinn H. Gunnarsson
Samgönguráðherra segir á vef bb.is í gær að hann vísi á bug orðum mínum um frestun Arnkötludals. Jafnframt staðfestir hann upplýsingar mínar um nýjar framkvæmdir á næsta ári, en segir óvarlegt að setja ákvörðun ríkisstjórnarinnar um þær vegaframkvæmdir sem fram eiga að fara á sama tíma í samhengi við frestunina. Þær framkvæmdir séu umferðaröryggisaðgerðir.

Þá vitum við það. Vegagerð við Vesturlandsveg og Suðurlandsveg á næsta ári fyrir 1000 milljónir króna á næsta ári eru umferðaröryggisaðgerðir, en vegagerð um Arnkötludal og Tröllatunguheiði á sama ári eru þensluaðgerðir. Þess vegna þarf að fresta þeim síðarnefndu en þær fyrrnefndu er hægt að ráðast í.

Vegagerðin á Vesturlandsvegi verður líklega sú að setja hringtorg í Mosfellsbæ við afleggjarann til Þingvalla og um Suðurlandsveg eru áformin, eftir því sem ég best veit, að vinna að 2+1 vegi um Hellisheiði og setja vegrið milli akreina. Vegagerðin í Strandasýslu er fólgin í því að gera veg sem þolir umferðina og leysir af hólmi afleita vegarkafla t.d. í Bitrufirði þar sem flutningabílar voru að velta fyrr á árinu vegna þess að vegarkanturinn gaf sig.

Mér finnst það ekki síðri umferðaröryggisaðgerðir en að gera hringtorg og skil ekki hvernig samgönguráðherrann getur séð mun á þessum framkvæmdum. Hvernig getur það verið þensluhvetjandi að koma í veg fyrir að bílar velti í Bitrufirði, en ekki þensluhvetjandi að greiða fyrir umferð um Mosfellsbæ til Þingvalla?

Það er staðreynd að í fjáraukalögum fyrir árið 2006, sem nýlega er búið að afgreiða sem lög frá Alþingi er sérstök fjárveiting 1,000 milljónir króna til vegagerðar á Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi á árinu 2007. Það er líka staðreynd að í frumvarpi frá ríkisstjórninni sem mælt var fyrir í upphafi vikunnar er lagt til að lækka fjárveitingu til Arnkötludals á næsta ári úr 400 mkr. í 200 mkr. en auka fjárveitinguna að sama skapi á árinu 2008.

Þessi lækkun er um fjórðungur af áætluðum framkvæmdakostnaði við verkið svo það fer ekki á milli mála að frestunin er umtalsverð. Það verður frestað um helmingi af áætluðum framkvæmdum næsta árs. Það er líka staðreynd að það átti að bjóða út verkið á þessi ári, en Vegagerðin hefur ekki enn fengið heimild til þess að bjóða það út og mun ekki fá þá heimild á árinu. Þar stendur samgönguráðherra í veginum, það er hans ákvörðun að seinka útboðinu, þrátt fyrir að forsætisráðherra hafi lýst því yfir á Alþingi í stefnuræðu sinni í byrjun október sl. að þá væri felld úr gildi sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að stöðva ný útboð á framkvæmdum.

Eftir þeim upplýsingum sem ég hef þá er áætlað að útboð fari fram í febrúar/mars á næsta ári og í ljósi þess að það ár verða aðeins 200 mkr. tiltækar af 900 mkr. heildarfjárveitingum blasir við að lítið verður unnið af heildarverkinu á árinu 2007. Satt best að segja er mér til efs að hægt verði að klára verkið á árinu 2008 miðað við þetta verklag.

Það stendur allt sem ég sagði í fyrri grein minni um málið, bæði um frestun á framkvæmdum um Arnkötludal og nýjar vegaframkvæmdir á sama tíma. Það liggur fyrir skjalfest í þingskjölum á Alþingi og í ræðum fjármálaráðherra og forsætisráðherra, þar sem þeir mæla fyrir lagafrumvörpum. Sturla Böðvarsson getur ekki vísað staðreyndum á bug og situr uppi með þær. Hann þarf að skýra þær fyrir Vestfirðingum og hefur engin svör á reiðum höndum önnur en þau að nýju framkvæmdirnar séu öryggismál en hinar séu þensla. Stóryrði hans í minn garð verður að skilja í þessu ljósi.

Ég vil ráðleggja ráðherranum að segja sannleikann, það er verið að láta framkvæmdir fyrir vestan og reyndar á norðausturhorninu líka víkja fyrir framkvæmdum við höfuðborgarsvæðið. Það er kjarni málsins.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður
www.kristinn.is