28/04/2024

Strandamenn á heimaslóð eru 672

645-amst4
Samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands eru Strandamenn á heimavelli jafnmargir í upphafi ársins 2013 og ári fyrr. Fjölgað hefur um 2 í Árneshreppi og jafnmarga í Strandabyggð, en fækkað um 4 í Kaldrananeshreppi. Ekki eru lengur gefnar út tölur fyrir Bæjarhrepp sem sameinaðist Húnaþingi vestra í upphafi ársins 2012. Í Árneshreppi eiga 54 lögheimili þann 1. janúar sl. en voru fæstir 48 árið 2008. Árið 2005 voru Árneshreppsbúar 57 og árið 1998 voru þeir 72. Í Kaldrananeshreppi áttu 100 manns lögheimili þann 1. janúar sl. og hafa íbúar hreppsins ekki verið færri. Árið 2005 bjuggu 117 í Kaldrananeshreppi og árið 1998 voru íbúar 142.

Í Strandabyggð áttu 518 manns lögheimili þann 1. janúar sl., en árið 2009 voru fæstir búsettir í sveitarfélaginu eða 490. Árið 2005 bjuggu líka 518 manns í Strandabyggð, en árið 1998 voru íbúarnir 639.

Íbúar á heimaslóðum í þessum þremur sveitarfélögum á Ströndum eru því 672 í upphafi ársins 2013. Þeir eru jafnmargir og í ársbyrjun 2012, en 20 færri en íbúarnir voru árið 2005. Á árabilinu 2006-2011 voru íbúar hins vegar færri en nú er.