22/12/2024

Strandamaður ársins 2007

Sandra Dögg var Strandamaður ársins 2006Nú liggur fyrir hverjir komast í seinni umferðina í kosningu á Strandamanni ársins 2007 sem fer fram hér á vefnum og í dagskrár- og fréttablaðinu Gagnvegi. Að þessu sinni eru valkostirnir fjórir, þar sem tveir fengu jafn margar tilnefningar í þriðja sæti. Þeir sem til greina koma og kosið verður á milli að þessu sinni eru Ásbjörn Magnússon og Valgerður Magnúsdóttir á Drangsnesi, Guðjón Þórólfsson á Hólmavík, Kristín S. Einarsdóttir á Hólmavík og Sigurður Atlason á Hólmavík. Hægt er að skila inn atkvæðum til miðnættis næstkomandi þriðjudag. Hver einstaklingur má aðeins kjósa einu sinni. Hér að neðan er umfjöllun um þá sem keppa til úrslita:

Ásbjörn Magnússon og Valgerður Magnúsdóttir á Drangsnesi hafa staðið í ströngu við uppbyggingu ferðaþjónustu á árinu 2007. Nýtt gistihús á Drangsnesi var opnað um vorið og kaffihúsið Malarkaffi var svo fyrst opnað á Bryggjuhátíðinni. Þá hefur lendingaraðstaða í Grímsey verið lagfærð mikið og Ásbjörn sér um reglubundnar siglingar þangað á Sundhana. Í umsögnum þeirra sem tilnefndu Ásbjörn og Valgerði kemur t.d. fram að þau "láti verkin tala", að framkvæmdasemi þeirra "bæti þjónustu á svæðinu, styrki atvinnu og bæti ímynd Drangsnesinga", að þau sýni "dugnað og þor" og "hafi trú á framtíð staðarins".

Guðjón Þórólfsson á Hólmavík er nýorðinn 15 ára og hefur náð afbragðs góðum árangri á íþróttasviðinu. Guðjón hefur náð sérstaklega góðum árangri í hástökki og er jafnframt mjög fær í öðrum íþróttagreinum, bæði hópíþróttum og einstaklingsíþróttum. Hann var valinn Íþróttamaður Strandabyggðar í ársbyrjun 2008. Í umsögnum um Guðjón segir að hann sé tilnefndur "vegna íþróttaafreka á árinu, vann Íslandsmót og Meistaramót í frjálsum og afrekaði fullt af öðru bæði í fótbolta og körfu" og einnig að hann sýni "dugnað og þolinmæði gagnvart yngri görpum á íþróttasviðinu" og að hann sé "góð fyrirmynd fyrir aðra".

Kristín S. Einarsdóttir á Hólmavík er kennari og vinnur einnig sjálfstætt, m.a. sem fréttaritari og útvarpsmaður og einnig að fullorðinsfræðslu og prentverkefnum. Á árinu 2007 hóf hún útgáfu á dagskrár- og fréttablaðinu Gagnvegi sem dreift er um alla Strandasýslu. Í umsögnum þeirra sem tilnefndu Kristínu segir að hún hafi unnið "frábær störf á liðnu ári" og að það sé "lofsvert framtak að gefa vikulega út blað sem er í senn skemmtilegt, fróðlegt og handbók fyrir lesendur". Eins segja þeir sem hana tilnefna að Kristín hafi sýnt dugnað við "fréttaflutning og að koma Ströndum á kortið", hún sé "dugleg og bóngóð", "jákvæð, lífsglöð og skemmtileg manneskja" og "að það ættu öll sveitarfélög að eiga eina Stínu".

Sigurður Atlason á Hólmavík er framkvæmdastjóri Strandagaldurs sem á síðasta ári fékk Eyrarrósina sem framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Hann átti auk þess frumkvæði að og kom á laggirnar klasasamstarfi ferðaþjóna undir merkjum Arnkötlu 2008 og náði að fjármagna það verkefni, rétt eins og vinnustaðinn Þjóðtrúarstofu. Um Sigurð segir í tilnefningum að hann hafi "komið Ströndum á kortið", "unnið óeigingjarnt starf í menningarmálum" og að hann hafi "staðið sig afbragðs vel í því að kynna Strandir og unnið vel að málefnum sem eru til bóta fyrir samfélagið". Einnig að hann hafi unnið "frábært starf í Arnkötlu 2008" og "verið virkur í félagslífinu og leiklistinni".