14/06/2024

Stórkostleg menningarhátíð

Bergur Thorberg málar úr kaffi-myndin er máluð á hvolfiMenningarhátíð Félagsmiðstöðvarinnar Ozon sem haldin var í Félagsheimilinu á Hólmavík í gærkvöldi tókst með miklum ágætum. Vel á annað hundrað manns fylgdust með dagskránni sem stóð til klukkan rúmlega ellefu. Fjöldi listamanna tók þátt í hátíðinni og gáfu þeir allir vinnu sína. Þá lögðu foreldrar til glæsilegar kaffiveitingar og gáfu allar veitingar. Unglingarnir í félagsmiðstöðinni fluttu mikið af tónlistaratriðum og spuna og einnig komu fullorðnir tónlistarmenn fram, auk þess sem spunatröll úr Leikfélagi Hólmavíkur stigu á stokk.

Gestur á hátíðinni var Bergur Thorberg myndlistarmaður sem málaði myndir úr kaffi í hléi og ávarpaði svo samkomuna og tók lagið. Bergur færði nemendafélaginu listaverk og þær Hlíf Hrólfsdóttir, Ásdís Jónsdóttir og Salbjörg Engilbertsdóttir færðu tónlistarskólanum átta rása mixer, til viðbótar við hljóðfærakost skólans.

Þá voru veitt verðlaun fyrir hugmynd að merki félagsmiðstöðvarinnar, en það var hugmynd Barkar Vilhjálmssonar sem var valin úr þeim þrjátíu hugmyndum sem bárust í keppnina í janúar sl. Skipulag þessarar vel heppnuðu hátíðar var alfarið í höndum unglinganna í Ozon, sem nutu leiðsagnar umsjónarmannsins fjölhæfa, Bjarna Ómars Haraldssonar. Hátíðin sem nú var haldin í annað sinn er ein stærsta fjáröflun Félagsmiðstöðvarinnar og miðað við stemmninguna í gærkvöldi er þetta hátíð sem er komin til að vera.

Auk myndanna hér fyrir neðan er myndasyrpu að finna á heimasíðu Grunnskólans og Bloggsíðu Stínu fréttaritara.

Hlíf Hrólfsdóttir heillaði nærstadda með söng sínum

Jón á Berginu fór á kostum

Árdís Rut Einarsdóttir setti hátiðina

Magnús Ingi Einarsson

Ingólfur og Indriði voru afar sannfærandi í spunanum