22/12/2024

Stjórnarskrárfrumvarp: Öflugra Alþingi, aukin áhrif almennings

Grein eftir Kristinn H. Gunnarsson
Í dag fór fram 1. umræða um frumvarp til breytinga á stjórnarskránni, sem ég flyt í þriðja sinn. Þar legg ég til þrjár breytingar sem allar eru til þess að styrkja Alþingi og auka áhrif almennings. Í fyrsta lagi er lagt til að afnema heimild einstakra ráðherra til þess að setja lög með því að fella brott ákvæði um bráðabirgðalög. Í öðru lagi er mælt fyrir um að ráðherrar megi ekki gegna starfi alþingismanns og loks verður stjórnarskránni aðeins breytt í almennri atkvæðagreiðslu meðal allra akvæðisbærra manna í landinu.

Allar þessar tillögur eiga erindi í þjóðfélagsumræðuna um þessar mundir, sérstaklega eftir hrun bankakerfisins. Eðlilega er spurt hvernig slíkt gat gerst og hvað ber að gera til úrbóta. Þegar leitað er skýringa þá kemur fljótt upp tiltölulega veik staða Alþingis og að sama skapi sterk staða framkvæmdavaldsins. Greinilega var löggjöfin ekki sem skyldi varðandi starfsemi og umfang bankakerfisins og eftirlit með því.

Þróunin hefur verið hér á landi undanfarna áratugi á þann veg að framkvæmdavaldið hefur eflst og sá sérstaklega ráðherrarnir og tök þeirra á þinginu eru mjög mikil. Ráðherrarnir eru forystumenn í þingflokkunum og leggja línurnar og óbreyttir þingmenn eiga framgang sinn og stöðu að miklu leyti undir þeim. Það er því ekkert gamanmál að ganga gegn skýrum vilja forystumanna flokksins sérstaklega ef flokkurinn er í ríkisstjórn.

Þá er þess krafist að menn gangi í takt eða spili með liðinu eins og það heitir. Ég hef nokkra reynslu í þesum efnum og hef mátt þola refsiaðgerir flokksforystunnar fyrir. Með því að setja ráðherrana út fyrir þingveggi og út úr þingflokkunum ættu að verða nauðsynlegar breytingar á valdahlutföllum til þess að þingmenn geti sinnt störfum sínum eins og til er ætlast í stjórnarskránni. Það er algerlega fráleitt fyrirkomulag að ráðherra geti ráðið því hvernig Alþingi setur lög. Þeir eiga að framkvæma lögin en ekki að setja þau.

Því miður fer vaxandi sú tilhneyging ráðherra til þess að misnota heimild stjórnarskrárinnar til þess að setja bráðabrigðalög ef brýna ástæðu ber til. Sett hafa verið bráðabirgðalög sem engin þörf var á að fara framhjá Alþingi með og ég tel það óhjákvæmilegt að afnema heimilda með öllu.

Það er mín skoðun að eitt af því sem þarf að gera núna til úrbóta, sem svar við því sem gerst hefur, er að Alþingi gegni því hlutverki sem því er ætlað í stjórnarskránni. Í því felst veigamikil framför og takmarkar verulega áhrifavald framkvæmdavaldsins og ekki síður áhrif einstakra atvinnufyrirtækja eða þrýstihópa á þær leikreglur sem Alþingi setur. Þessi breyting er ekki sú eina sem þarf að ráðast í en hún er sú mikilvægasta og án hennar draga aðrar breytingar skammt.

Þess vegna er ég svolítið vonsvikin yfir því tómlæti sem margir sýndu málinu í dag. Ég tel að Alþingi hafi einmitt verið að ræða kjarna málsins og það var vel við hæfi sem kannski aldrei fyrr. Þeir sem til máls tóku tóku undir efni frumvarpsins og voru sammála um mikilvægi þess. En mest tómlæti sýndu þeir sem skömmuðust yfir því úr ræðustól þingsins fyrr í dag að á dagskrá þingsins væru ekki mál sem að þeirra mati ætti hvað helst að taka fyrir. Þeir tóku ekki þátt í umræðunni né létu sjá sig í þingsalnum. En orð og athafnir fylgjast ekki alltaf að.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður
www.kristinn.is