22/12/2024

Starfsemi Þjóðfræðistofu komin á skrið

Kristinn kemur sér fyrirKristinn Schram, forstöðumaður Þjóðfræðistofu, er um þessar mundir að flytja í skrifstofu sína í Þróunarsetrinu á Hólmavík, en þegar hefur verið unnið mikið starf í uppbyggingu fræðasetursins sem tók til starfa í vor. Þjóðfræðistofa er helguð rannsóknum og miðlun á þjóðfræði og tengdum fræðigreinum innanlands sem utan. Eitt fyrsta verkefnið sem unnið er að innan vébanda Þjóðfræðistofu er heimildamynd um Gísla sögu Súrssonar og merkingu sögunnar af honum í nútímanum, undir vinnuheitinu Leitin að Gísla.

Unnið hefur verið að tökum á myndinni í sumar á vegum Þjóðfræðistofu og er tökum nú lokið að mestu. Í myndinni er leitað svara við því hvaða merkingu Gísla saga Súrssonar hefur í huga nútímafólks og ekki síst Vestfirðinga. Fjallað er um með hvaða hætti leitað er fanga í söguöld til að komast af í nútímanum og
hvernig sjálfsmyndir kunna að byggja á fornum frásögnum en jafnframt aðkallandi viðfangsefnum hins dagslega lífs.

Í myndinni er farin sú leið að sýna vettvangsferð tveggja þjóðfræðinga á slóðir Gísla sögu og tengist hún rannsóknarverkefnum þeirra. Finnski þjóðfræðingurinn Joonas Ahola, hefur að undanförnu rannsakað nútímaviðtöku útlagaminnisins í Íslendingasögum. Doktorsritgerð hans við Háskólann í Helsinki fjallar meðal annars um þverstæður í ímynd útlagans sem er í senn hetja og hrappur, sem þó er samhenginu háð.

Kristinn Schram, forstöðumaður Þjóðfræðistofu, hefur hins vegar skoðað þjóðernisímyndir og framsetningu þeirra. Doktorsritgerð hans við Edinborgarháskóla fjallar meðal annars um hvernig íslensk þjóðernisvitund er mynduð en Íslendingasögur hafa leikið þar stórt hlutverk. Hann hefur fyrst og fremst áhuga á túlkun og miðlun Íslendingasagna og ekki síður hvernig heimamenn á söguslóðum upplifa Gísla sögu og miðla henni til utanaðkomandi.

Heimildamyndin er byggð á samskiptum þjóðfræðinganna við heimamenn, myndskeiðum frá ferðinni um náttúru og menningu Vestfjarða, viðtölum við Dýrfirðinga og aðra Vestfirðinga, þar sem viðhorf eru könnuð á
persónum, stöðum og atburðum í Gísla sögu. Meginstef sögunnar, persónusköpun og heimspeki, er ennfremur skoðað með hliðstæðum úr nútímalífi Vestfirðinga.Tökurnar fóru fram á fjölmörgum sögustöðum á Vestfjörðum og við Breiðafjörð og voru tekin á um annan tug viðtala.

Umsjón með verkefninu er í höndum Þjóðfræðistofu og leiða Kristinn Schram forstöðumaður, Joonas Ahola þjóðfræðingur í Finnlandi og Pasi Ylirisku kvikmyndagerðarmaður verkefnið.

Heimamenn veittu verkefninu mikinn liðstyrk, að sögn Kristins, til dæmis aðstandendur Dýrafjarðardaga og félagið Víkingar á Vestfjörðum. Verkefnið er m.a. styrkt af Menningarráði Vestfjarða, Menningarsjóði
Íslands og Finnlands og framleiðslufyrirtækinu Tarinapuu Inc.

bottom

Aðalmennirnir við kvikmyndavinnu á vettvangi

frettamyndir/2008/580-kvikmynd-kristinn.jpg

 Kristinn Schram að koma sér fyrir í Þróunarsetrinu á Hólmavík