16/10/2024

Starfsemi Sauðfjárseturs í uppnámi

Hildur Pálsdóttir kennir börnunum spunakúnstirnarÓljóst er hvað verður með starfsemi Sauðfjárseturs á Ströndum næstkomandi sumar, eftir að í ljós kom í dag að Safnasjóður hefur skorið verulega niður rekstrarstyrk til safnsins. Sauðfjársetrið fékk framlag úr Safnasjóði að upphæð 1,5 milljón á árinu 2004, en nú hefur borist bréf þar sem kynntur er niðurskurður á styrknum þetta ár í 600 þúsund. Þá hefur Héraðsnefnd Strandasýslu enn ekki haldið aðalfund fyrir árið 2004 og því er óljóst með stuðning frá sveitarfélögum á þessu ári.

Sauðfjársetrið fékk hins vegar styrk frá ríkinu á fjárlögum 2005 að upphæð 3 milljónir, til kaupa á húsnæðinu að Skeiði 3 á Hólmavík. Þar er verkstæði, safngeymsla og skrifstofur Sauðfjársetursins. Í viðtali við strandir.saudfjarsetur.is sagði Jón Jónsson framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins að endurvinna þurfi allar áætlanir fyrir árið 2005 á næstu vikum í ljósi úthlutunar úr Safnasjóði sem hafi verið mjög óvænt.

„Þetta er kjaftshögg, engar vísbendingar höfðu borist um að endurskoða ætti úthlutunarkerfið svona hastarlega, litlu söfnunum í óhag. Vinnubrögð Safnaráðs eru hreint ekki til fyrirmyndar,“ sagði Jón og bætir við: „Ég reikna með að Héraðsnefnd fundi fljótlega og þá skýrist endanlega hvort það verður opið hjá okkur í sumar eða hvort við einbeitum okkur að frekari vinnu við fjármögnun verkefnisins þetta árið. Það er þessi veglegi styrkur frá fjárlaganefnd Alþingis sem kemur í veg fyrir að við Sauðfjársetursmenn gefumst upp.“

Framlag úr Safnasjóði til Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna að Reykjum í Hrútafirði lækkar líka verulega. Pétur Jónsson safnvörður á Reykjum segir Safnaráð koma í bakið á safnamönnum með því að lækka rekstrarstyrki verulega á milli ára. Framlagið frá ríkinu í Safnasjóð sé það sama, en rekstrarstyrkir frá sjóðnum séu samt skornir niður. Fyrir minni söfnin úti á landi hafi þessir styrkir skipt sköpum. Engan veginn sé ljóst eftir hvaða reglum er farið við úthlutun. Pétur segir einnig undarlegt að úthlutunarreglur, sem hljóti að vera til, séu aldrei kynntar þegar auglýst er eftir umsóknum og breytingar í áherslum úthlutunarnefndar komi ætíð eftir að umsóknarfresti líkur.

350-spinna
Sauðfjársetrið hefur verið mjög öflugt í menningarlífinu á Ströndum síðustu ár.