18/04/2024

SPIK í Selasetrinu á Hvammstanga

Selir við KirkjubólMyndlistarsýningin SPIK verður opnuð í Selasetri Íslands á Hvammstanga þann 23 júní klukkan 16:00. SPIK  er samstarfsverkefni hóps myndlistarmanna sem kallar sig Selínu. Hópurinn hefur um tveggja ára skeið unnnið að undirbúningi þessarar sýningar og meðal annars farið í nokkra rannsóknarleiðangra á Vatnsnesið til þess að gaumgæfa seli og afla efnis og hugmynda fyrir verkefnið. Verkin á sýningunni eru unnin í margskonar efni en eiga það sameiginlegt að byggja á  hugmyndum þar sem selurinn er í aðalhlutverki á einn eða annan hátt.

Verkin fjalla meðal annars um þá þjóðsagnakenndu dulúð sem oft birtist í sögnum um seli og heimkynni þeirra, samskipti manns og náttúru, hamskipti, ævintýri og þjóðsögur. Í tengslum við sýninguna verður safnað sögum um seli. Verkefnið er unnið í samstarfi við Selasetur Íslands og verður listaverkunum komið fyrir innan um sýningargripi setursins. 

Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru: Anna Guðjónsdóttir, Anna Hallin, Anna Líndal, Bryndís Snæbjörnsdóttir, Eygló Harðardóttir, Olga Bergmann og Ólöf Nordal. Einnig taka arkitektarnir Hrefna Björg Þorsteindóttir og Hólmfríður Ósmann Jónsdóttir þátt í sýningunni.

Sýningin er opin á opnunartíma setursins og stendur yfir til ágústloka. Nánari upplýsingar eru á www.selasetur.is og hjá Önnu Líndal í síma 892-6357.