23/12/2024

Sól við Steingrímsfjörð

Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is var á þvælingi um Steingrímsfjörð á dögunum í súld og dimmviðri, en þó var svo misskipt mannanna láni að á tveimur bæjum var sól og blíðviðri. Var það á nágrannabæjunum Heiðarbæ og Húsavík sem sólin skein. Myndavélin var með í för og smellt af myndum af þessum bæjum og einnig Húsavíkurkleifinni sem er nú orðinn vinsælli áningarstaður en nokkru sinni, eftir að brú og bekkur og upplýsingaspjöld hafa verið sett við kleifina. Tvö lömb stilltu sér líka upp fyrir ljósmyndarann og í nokkurri fjarlægð var Húsavíkurbóndi að slá með sláttutætara, sem fer nú að teljast fágæt sjón hér um miðbik Stranda.

Ljósm. Jón Jónsson