26/12/2024

Sláturtíðin árið 1982

Nú er að ljúka mesta fjárstússinu hjá Strandabændum, en flestir þeirra eru án efa búnir að senda fé í sláturhús og velja álitleg lömb til að halda eftir heima. Svona hefur þetta gengið í áratugi, en helsta breytingin er eflaust sú að síðustu ár hefur sláturhúsum á Ströndum fækkað niður í ekki neitt. Það er gaman að skyggnast aftur í tímann til að rifja upp tíðarandann þegar starfsemi sláturhúsanna var í fullum gangi. Fyrir nákvæmlega 24 árum, þann 22. október árið 1982, birtist grein í Morgunblaðinu um slátrun á Hólmavík. Í greininni er sagt frá spjalli við Lýð Magnússon sláturhússtjóra um heildarslátrun og fallþunga, en einnig er greint frá áformum Strandamanna í refabúskap:

Búfé ekki fækkað í grennd við Hólmavík

Slátrun lauk hér þann 12. október og hafði þá staðið í rúmar þrjár vikur. Þær upplýsingar fengust hjá Lýð Magnússyni, bónda og sláturhússtjóra, að heildarslátrun hefði numið 14.066 fjár og er það u.þ.b. 500 færra en í fyrra. Þyngsta dilkinn átti Guðbrandur Björnsson, Smáhömrum, 30,4 kg, en að jafnaði voru dilkar 15,58 kg (blautvigt). Að sögn Lýðs var ekki um að ræða fækkun búfjar hjá bændum í nágrenni Hólmavíkur. Heyskapur mun þó hafa verið minni en í meðalári hjá flestum bændum.

Þess má að lokum geta, að nú á næstunni munu fjórir aðilar í Bjarnarfirði og á Hólmavík taka upp refabúskap, en í dag stundar aðeins einn þeirra búskap.

Fréttaritarar.