23/12/2024

Sláttur hafinn á Hólmavík

Sláttur er hafinn fyrir nokkru hjá starfmönnum Hólmavíkurhrepps og smellti tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is þessum myndum af þeim Konráð og Steinari við vinnu sína á tjaldsvæðinu á Hólmavík á dögunum. Á hreppsnefndarfundi á Hólmavík í vikunni kom til umræðu að kaupa lítinn sláttutraktor til afnota fyrir hreppinn, en því var hafnað. Að sögn Ásdísar Leifsdóttir sveitarstjóra áttu menn slæmar minningar um slíkan grip og var í tengslum við þetta ræddur sá möguleiki að athuga með stærri vél sem gæti þá líka nýst til hálkuvarna yfir vetrartímann, án þess að nokkuð hafi verið ákveðið í þeim efnum. Sláttumennirnir slyngu hjá Hólmavíkurhreppi verða því enn um sinn að glíma við garðsláttuvélina og orfið.

Ljósm. Jón Jónsson