22/12/2024

Skrifað undir menningarsamninga

Í dag var skrifað undir tvo menningarsamninga á Staðarflöt í Hrútafirði, annars vegar við Norðurland vestra og hins vegar við Vestfirði. Það var Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sem skrifaði undir samningana fyrir hönd ríkisvaldsins, en fyrir Vestfirði skrifaði Anna Guðrún Edvardsdóttir formaður stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga undir og fyrir Norðurland vestra skrifaði Adolf H. Berndsen formaður samtaka sveitarfélaga á svæðinu undir. Fjöldi sveitarstjórnarmanna og fólks sem stendur framarlega í menningarstarfi og menningartengdri ferðaþjónustu á öllum Vestfjörðum og Norðurlandi var viðstatt.

Tilgangur menningarsamninga er að efla og styðja við menningarstarf og menningartengda ferðaþjónustu  í þessum landshlutum. Jafnframt eru áhrif sveitarfélaga á forgangsröðun verkefna aukin. Samstarfsvettvangur sveitarfélaganna verða svokölluð menningarráð sem stofnuð hafa verið á báðum svæðum og munu þau standa fyrir þróunarstarfi í menningarmálum, auk þess að auglýsa og úthluta fjármagni til menningarverkefna og verkefna á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Framlag ríkisins til samningsins við Vestfirðinga mun vera um það bil 90 milljónir á þremur árum, en samningurinn verður annars birtur á vefsvæði ráðuneytanna á morgun.

Anna Guðrún, Sturla og Adolf skrifa undir samningana. Sannkallaður gleðidagur fyrir menningu og mannlíf á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.

Kristján Sigurðsson á Hólmavík tróð upp á athöfninni og söng lag úr Þið munið hann Jörund við mikinn fögnuð. Aðrir Strandamenn sem viðstaddir voru undirritunina voru Sigurður Atlason, Jón Jónsson og Matthías Lýðsson.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra var ánægður með að samningarnir væru nú loks undirritaðir og sagðist sannfærður um að þeir myndu verða til þess að efla menningarstarf á svæðunum, eins og þegar hefði komið í ljós á Austurlandi þar sem slíkur samningur hefur verið í gildi í nokkur ár. Bæði Samgönguráðuneyti og Menntamálaráðuneyti leggja fé til samninganna, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra var forfölluð.

Anna Guðrún Edvaldsdóttir er í bæjarstjórn Bolungarvíkur og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga. Hún lagði áherslu á mikilvægi öflugs og góðs samstarfs sveitarfélaga á Vestfjörðum öllum við framkvæmd menningarsamningsins og þau fjölmörgu tækifæri og ávinninginn sem í samstarfinu býr.

Guðrún Helgadóttir á Hólum í Hjaltadal, formaður Menningarráðsins á Norðurlandi vestra, segir nokkur vel valin orð. Elín Líndal sveitarstjórnarmaður í Húnaþingi vestra sem stjórnaði athöfninni og Sturla Böðvarsson hlusta af athygli.

Ljósm. Jón Jónsson.