22/12/2024

Skötuveisla á Drangsnesi

Nú eru margir Strandamenn farnir að dreyma um blessaða skötuna sem er hefðbundinn matur víða á Þorláksmessu. Sú skemmtilega hefð er árviss á Drangsnesi að skólabörnin í Grunnskólanum á Drangsnesi sjá þar um skötuveislu á Þorláksmessu, með aðstoð foreldra sína.

Um kvöldið fjölmenna síðan íbúarnir í sameiginlega skötuveislu í Samkomuhúsinu Baldri. Með þessu framtaki safna nemendurnir í ferðasjóðinn sinn. Ávinningurinn er margþættur því um leið kætast væntanlega margar húsmæður yfir að vera lausar við skötuilminn í heimahúsum, matmenn fá gott í gogginn og félagslyndir íbúar hreppsins kætast yfir mannamótinu.