20/04/2024

Skortur á kvenfólki?

Hjallur á SelströndEins og fram kom á strandir.saudfjarsetur.is í gær er allmikill munur á fjölda karlkyns og kvenkyns íbúa á svæðinu. Karlmenn eru samtals 433 en konur eru 359 talsins, þannig að karlar eru 74 fleiri en kvenfólkið. Þetta vandamál hefur þó verið viðloðandi svæðið alllengi. Munurinn á kynjunum fyrir tíu árum síðan, árið 1994, var enn meiri heldur en hann er í dag en þá voru karlar 584 talsins og konurnar aðeins 488 þannig að munurinn þá hefur verið 96 íbúar – konunum í óhag.

Hvað veldur þessum mun er erfitt að segja, en líklegt er að helsta orsökin séu fábrotnir atvinnumöguleikar fyrir kvenfólk á Ströndum en hugsanlegt er líka að Strandamenn séu duglegri við að búa til stráka en stúlkur. Hvað sem því líður er öruggt að þarna er á ferðinni kjörið rannsóknarverkefni – annaðhvort fyrir byggðaáætlunarverkefni Iðnaðarráðuneytissins eða Kára Stefáns.

Þegar skoðaður er fjöldi karla og kvenna á "atvinnualdri", þ.e. 18-67 ára, kemur í ljós að hlutfallið er lítið skárra en þegar litið er á heildina. Þó hefur munurinn milli kynjanna minnkað síðustu tíu ár sé litið á höfðatöluna – konum á vinnualdri búsettum á Ströndum hefur fækkað um 68 en körlum á vinnualdri hefur fækkað um 82.

Karlar á Ströndum 18-67 ára 1994 – 363

Konur á Ströndum 18-67 ára 1994 – 281

Karlar á Ströndum 18-67 ára 2004 – 277

Konur á Ströndum 18-67 ára 2004 – 213