22/12/2024

Skíðagöngunámskeið og Vasagangan

Á laugardag stendur til að halda skíðagöngunámskeið á vegum Skíðafélags Strandamanna í Tröllatungu við Hleypilæk en þar eru góðar aðstæður til skíðagöngu eins og er. Farið verður yfir grunnatriðin í skíðagöngu með hefðbundinni aðferð. Ekkert þátttökugjald er á námskeiðinu og það er öllum opið, jafnt byrjendum sem lengra komnum. Leiðbeinandi á námskeiðinu verður Ragnar Bragason. Nú styttist í Strandagönguna og er því tilvalið að skella sér á námskeið á laugardaginn og fara að æfa sig fyrir gönguna.  

Á sunnudaginn er Vasagangan haldin í Svíþjóð þar sem tveir Strandamenn, Rósmundur Númason og Birkir Þór Stefánsson keppa. Á heimasíðu Skíðafélagsins sfstranda.blogcentral.is/ hafa verið settir tenglar þar sem hægt er að fylgjast með þeim í göngunni, þar er tími, sæti meðalhraði og millitímar á nokkrum stöðum á leiðinni.